Ekki skánaði ástandið hjá heimamönnum í öðrum leikhluta. Njarðvíkingar héldu áfram að hitna, ekki síst hinn hnitmiðaði Ágúst Orrason, og staðan skyndilega orðin 12-27. Örvar tók þá leikhlé og hellti sér yfir sína menn. Það virtist eitthvað hressa leikmennina, en þó einkum varnarlega. Eftir skemmtilega tilraun Björgvins til að troða rækilega yfir Tracy og góða baráttu höfðu heimamenn minnkað muninn í 23-33. Liðin skiptust þá á nokkrum körfum en fyrri hálfleik lauk með skemmtilegum tilþrifum – hinn eigi svo litli Egill Jónasson greip þá sendingu Loga í sjöunda himni og tróð boltanum aftur fyrir sig í körfu heimamanna! Mikið krydd og gestirnir 31-43 yfir í hálfleik.
Hellisbúarnir byrjuðu af krafti í síðari hálfleik og ætluðu greinilega að selja sig dýrt. Munurinn fór niður í átta sig og kannski von til þess að helfreðnir heimamenn myndu loksins fara að setja einhver skot niður. Því miður fyrir þá voru það hins vegar gestirnir sem enn héldu áfram að hitna og Ólafur Helgi bættist í hóp vel heitra Njarðvíkinga. Eftir allnokkra þrista frá Ólafi, Ágústi og Loga var staðan orðin 45-65 og útlitið heldur svart hjá gestgjöfunum. Greina mátti smá vonleysi í líkamstjáningu heimamanna og að loknum leikhlutanum var enn 20 stiga munur, 52-72.
Úrslitin voru svo ráðin eftir tvo þrista enn frá Ágústi og iðnaðartroðslu frá Tracy er sjö mínutur voru eftir og staðan orðin 55-83. ÍR-ingar löguðu lítið eitt stöðuna í lokin en leiknum lauk með öruggum 72-95 sigri Njarðvíkinga.
ÍR-ingar hafa komið skemmtilega á óvart og raðað inn stigum að undanförnu en í kvöld gekk ekkert upp og gátu þeir ekki keypt körfu á löngum köflum. Sveinbjörn Klassi var atkvæðamestur með 20 stig og 8 fráköst og Björgvin hinn áræðni Ríkharðsson kom þar á eftir með 18 stig og 5 stoðsendingar en þeir félagar hafa hitt betur eins og aðrir liðsmenn ÍR-inga.
Njarðvíkingar fengu framlag úr öllum áttum og má segja að um góðan liðssigur hafi verið að ræða í kvöld. Tracy endaði leik með tröllatvennu, 21 stig og 19 fráköst. Þeir félagar Ólafur Helgi og Ágúst Orrason minntu svo heldur betur á sig, Ólafur Helgi með 18 stig og Ágúst 17 en þeir voru samanlagt með 9 þrista í aðeins 12 skotum í kvöld.
Viðtal við Einar Árna, þjálfara Njarðvíkinga:
Hver er þín sýn á þennan leik?
Ég er náttúrulega bara virkilega ánægður með massívan liðssigur. Við erum að koma úr þriggja leikja taphrinu í deildinni og sást það langar leiðir á mönnum að þá langaði mikið. Við vorum svolítið fljótfærir í sóknarleiknum í upphafi en varnarleikurinn í leiknum nánast allan tímann virkilega öflugur. Margir að leggja í púkkið og við fáum hörku framlag frá Ólafi Helga og Ágústi í stigaskori í dag og Logi og Elvar duglegir að spila menn uppi og bara flottur liðssigur.
Já, liðið lítur afskaplega vel út þegar menn eins og Ólafur og Ágúst skila svona miklu til liðsins.
Já, við töluðum um það eins og til dæmis eftir leikinn á móti Grindavík þar sem að fyrri hálfleikurinn var að mörgu leyti góður en vorum þá bara með þrjá menn á blaði og við erum ekki að nýta okkar styrkleika þannig. Í dag tókst okkur að kreista út það sem við getum sýnt – við erum gott lið og á síðasta tímabili var það styrkleiki okkar að margir voru að leggja í púkkið og við höldum áfram að leita að því. Við fáum auðveldar körfur með góðri vörn og með svona fyrirmyndarsamvinnu manna á milli þá erum við í flottum málum.
Það stefnir í að þið náið fjórða sætinu og það hlýtur að vera dýrmætt að ykkar mati?
Það er hörku barátta eftir og við þurfum að fókusera á okkur sjálfa. Markmið okkar var að enda í einu af fjórum efstu sætunum og ná í heimavöll í úrslitakeppni og okkur líður auðvitað alltaf best heima og við ætlum að leggja allt okkar í þessa tvo síðustu deilarleiki og tryggja þetta fjórða sæti.
Viðtal við Björgvin Þ. Ríkharðsson, leikmann ÍR-inga:
Það hefur gengið rosalega vel hjá ykkur undanfarið en nú hittuð þið kannski bara á einn af þessum leikjum þar sem ekkert gengur upp, ekkert vildi ofan í og eins og að það væru ykkar örlög að eiga engan séns í kvöld.
Jájá, það gekk ekki neitt upp í þessum leik en Njarðvíkingar eru líka bara með mjög gott lið og erfitt fyrir öll lið að mæta þeim. Við þurfum bara að mæta tilbúnari í leikina ef við ætlum okkur að komast í playoffs.
Þið eigið enn ágætan möguleika á að komast í úrslitakeppnina?
Já, við verðum bara að taka restina, taka Keflavík úti og vinna svo Þórsarana heima.
Hvernig sérðu möguleika liðsins komist það í úrslitakeppnina? Andstæðingurinn gæti t.d. orðið sterkt lið KR.
Það er alltaf von ef við komumst í playoffs. Við erum ekki að fara að gefa neinu liði öruggt sæti í undanúrslitum. Við berjumst bara til enda. Við áttum góðan leik á móti KR hérna heima um daginn og vorum bara óheppnir að sigra ekki þann leik.
MYND: Ólafur Helgi Jónsson átti góðan leik fyrir þá grænklæddu í kvöld
Umfjöllun: Kári Viðarsson



