spot_img
HomeFréttirGóður árangur á erfiðri leiktíð hjá Úlfunum

Góður árangur á erfiðri leiktíð hjá Úlfunum

Hörður Axel Vilhjálmsson og Úlfarnir frá Weißenfels spiluðu sinn síðasta leik á leiktíðinni fyrir helgi þegar þeir sóttu heim TBB Trier. Leiknum lauk með sigri Trier 89-81 og skoraði Hörður 9 stig auk þess að gefa 5 stoðsendingar. 

 

Úlfarnir enduðu leiktíðina í 12. sæti deildarinnar með 14 sigurleiki og 20 töp, en það er þriðji besti árangur liðsins síðan félagið fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu 2004. Árin 2000 og 2001 hafði liðið hins vegar spilað í fjórðungsúrslitum deildarinnar.

 

"Það er lítið hægt að kvarta yfir því að lið með langminnsta fjármagnið til umráða endi í 12. sæti í þessari deild," sagði Hörður í stuttu spjalli við Karfan.is í dag. "Tímabilið var fínt, nokkuð sáttur heilt yfir. Hefði bara viljað hafa kost á að byrja betur persónulega þá hefði ekki verið yfir neinu að kvarta." Hörður sagðist hafa byrjað tímabilið á ofþjálfun og hafi verið lengi að ná sér og hafi í raun aldrei náð sér almennilega í vetur. "Ég verð góður eftir smá hvíld og áskrift hjá sjúkraþjálfara."

 

Hörður Axel endaði leiktíðina með 10,1 stig í leik sem var það næsthæsta í liðinu ásamt tveimur öðrum leikmönnum. Hann skaut 39,2% utan af velli og þar af 32,4% í þriggja stiga skotum með 1,5 þriggja stiga körfu í leik. Hörður var með hæstu vítanýtingu liðsins af þeim sem skutu meira einu skoti í leik eða 84,1%. Hörður var þriðji hæstur í stoðsendingum með 2,4 í leik og með flesta stolna bolta eða 0,9 í leik. 

 

Ekki slakur árangur hjá leikmanni frá litla Íslandi að spila í deild sem er ein af fimm sterkustu í Evrópu.

 

Hvað varðar framtíðina hjá Herði Axel er allt enn óráðið. "Nei, það er bara enn maí og ómögulegt að segja til um hvað maður endar." Hann segist þó vilja vera áfram í Þýskalandi ef það stæði til boða.

 

Í myndbandinu hér að neðan er hægt að sjá helstu tilþrif frá landsliðsbakverðinum okkar frá þessari leiktíð.

 

Fréttir
- Auglýsing -