Íslenska landsliðið mun á fimmtudag hefja leik í undankeppni HM27 með leik gegn Ítalíu í Tortona.
Ásamt Ítalíu og Íslandi eru í riðlinum Bretlands og Litháen, en seinni leikur þessa fyrsta glugga keppninnar er komandi sunnudag gegn Bretlandi heima í Laugardalshöll.
Íslenska liðið ferðaðist til Tortona á Ítalíu síðasta sunnudag þar sem leikur þeirra gegn heimamönnum mun fara fram á fimmtudag. Íslenski hópurinn samanstendur af 12 leikmönnum, en með þeim er þriggja þjálfara teymi.
Karfan heyrði í einum aðstoðarþjálfara liðsins Viðari Erni Hafsteinssyni og spurði hann um undankeppnina, leikinn gegn Ítalíu og hópinn sem fer í verkefnið.
Íslenska liðið gerði sögulega vel í síðustu undankeppni og var aðeins einu skoruðu stigi frá því að tryggja sig á lokamótið. Varðandi þessa nýju undankeppni og hvað íslenska liðið þyrfti að gera sagði Viðar Örn ,,Halda áfram að byggja á því góða sem hefur verið hjá þessu liði síðustu ár. Það þarf að vera orka og stemming, þurfum sigra á heimavelli og fara með sem flest stig inní næsta riðil.”
Þrátt fyrir venjulega nokkurn mun á heimslista FIBA hefur íslenska liðinu tekist að gera því ítalska skráveifu í síðustu tveimur undankeppnum EuroBasket og HM. Heimaleikinn í undankeppni HM 2023 og útileikinn í undankeppni EuroBasket 2025 vann Ísland, en varðandi mótherja morgundagsins sagði Viðar Örn ,,Ítalir með nýjan þjálfara og nokkuð marga sem hafa ekki verið í liðinu áður. Við rennum aðeins blint í sjóinn með það hvernig bolta þeir spila. Eru með góða leikmenn þó þetta séu ekki sömu andlit og við höfum verið að spila við í síðustu gluggum”
Íslenski hópurinn sem tilkynntur var á dögunum gífurlega reynslumikill í landsleikjum, en fyrir utan Kristinn Pálsson sem frá er vegna meiðsla má segja að allir aðrir leikmenn síðustu keppna séu klárir fyrir þennan fyrsta glugga, en varðandi þann hóp sem þjálfarar völdu að þessu sinni segir Viðar ,,Svipaður hópur og hefur verið, aðeins meiðsli sem verður til þess að það voru breytingar. Styrkleikarnir eru klárlega samheldni og liðsheild. Góður andi í hópnum og svo erum við líka með hágæða leikmenn í körfubolta.”



