spot_img
HomeFréttirGóð frammistaða í þrjá leikhluta ekki nóg gegn sterku liði Finnlands

Góð frammistaða í þrjá leikhluta ekki nóg gegn sterku liði Finnlands

Undir 18 ára drengjalið Íslands mátti þola tap í dag gegn Finnlandi á Norðurlandamótinu í Södertalje, 90-78. Liðið því enn án sigurs eftir fyrstu fjóra leikina, en lokaleikur þeirra á mótinu er gegn Noregi kl. 08:00 á íslenskum tíma á morgun.

Fyrir leik

Gengi liðanna tveggja á mótinu gjörólíkt fyrir leik dagsins. Ísland hafði beðið ósigur í fyrstu þremur leikjunum á meðan að Finnland hafði unnið alla leiki sína.

Í byrjunarliði Íslands í leiknum voru Viktor Jónas Lúðvíksson, Birkir Hrafn Eyþórsson, Lúkas Aron Stefánsson, Kristófer Breki Björgvinsson og Frosti Valgarðsson.

Gangur leiks

Leikurinn var jafn og spennandi á upphafsmínútunum og skiptust liðin á forystunni í nokkur skipti í fyrsta leikhlutanum. Með þrist frá Thor Grissom þegar fjórðungurinn var að enda var það þó Ísland sem var yfir fyrir annan leikhlutann, 18-21. Ísland nær svo góðum tökum á leiknum í öðrum leikhlutanum. Spila hörku vörn og ná að keyra í bakið á finnska liðinu við tapaða bolta. Uppskera mest 12 stiga forystu undir lok fyrri hálfleiksins. Finnska liðið kemur þó aðeins til baka og þegar liðin halda til búningsherbergja er munurinn níu stig, 43-52.

Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Ásmundur Múli Ármannsson með 10 stig og þá var Thor Grissom með 12 stig.

Nokkuð áhugaverð atburðarrás á sér stað í upphafi seinni hálfleiksins þar sem að einn af betri leikmönnum Finnlands Elmery Abbey fær tvær tæknivillur í beit, aðra fyrir flopp og hina í sókninni á eftir fyrir ógnandi tilburði. Þetta nær íslenska liðið lítið að nýta sér í framhaldinu, þvert á móti virðist finnska liðið þjappa sér saman og ná þeir að halda í við Ísland til loka þriðja fjórðungs, 62-67. Finnska liðið nær svo að vinna niður forskot Íslands á fyrstu mínútu lokaleikhlutans, 67-67. Enn halda þeir áfram og er Finnland með 10 stiga forskot þegar fimm mínútur eru til leiksloka, 79-69. Þeirri forystu ná þeir svo að hanga á fram til loka leiks og sigra að lokum nokkuð örugglega, 90-78.

Atkvæðamestir

Thor Grissom var atkvæðamestur í liði Íslands í dag með 24 stig og 3 fráköst. Honum næstur var Viktor Jónas Lúðvíksson með 7 stig, 13 fráköst og 2 varin skot.

Kjarninn

Leikur dagsins var líklega besti leikur íslenska liðsins á mótinu til þessa. Spiluðu á köflum frábæra vörn og fengu skot sín til þess að detta. Geta þó nagað sig í handabökin að hafa ekki náð að klára leikinn á sama hraða og þeir léku fyrstu þrjá leikhlutana.

Hvað svo?

Þá er aðeins einn leikur eftir á mótinu hjá drengjunum, en hann er kl. 08:00 á íslenskum tíma í fyrramálið gegn Noregi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -