spot_img
HomeFréttirGóð byrjun Skallagríms ekki nóg gegn Stjörnunni

Góð byrjun Skallagríms ekki nóg gegn Stjörnunni

Stjarnan rétt knúði fram sigur á Skallagrím í 19. umferð Dominos deildar karla. Skallagrímur átti algjörlega ótrúlega byrjun í leiknum en Stjarnan kom til baka og vann að lokum 83-80 sigur. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins.

 

Borgnesingar mættu heldur betur til leiks bæði innan vallar og í stúkunni. Skallagrímur komst strax í 2-12 forystu og það var líkt og tap Stjörnunnar á Tindastól í byrjun viku sæti enn í þeim því menn voru hreinlega ekki tilbúnir í baráttu og læti. Magnús Þór Gunnarsson setti fyrstu þrjú þrigga stiga skotin sín í leiknum og var sjóðandi heitur. Varnarleikur Skallagríms fylgdi með en liðið þvingaði Stjörnuna í mjög erfið skot og gaf þeim ekkert undir körfunni. Munurinn varð mestur 28-10 fyrir Skallagrím en þriggja stiga karfa Tómasar Þórðar minnkaði muninn í 15 stig og var staðan eftir ótrúlegan fyrsta leikhluta 15-30. 

 

Bekkur Stjörnunnar setti 16 stig í öðrum leikhluta þar sem þeir Arnþór, Ágúst og Eysteinn fóru fyrir sínum mönnum. Stjarnan hafði skyndilega náð Skallagrím með góðu áhlaupi og liðin skiptust á að hafa forystuna fyrir hálfleik og endaði hann 44-45 Skallagrím í vil.

 

Sama var uppá tengingnum í seinni hálfleik. Bæði lið náðu nokkrum áhlaupum en þess fyrir utan var munurinn ávalt lítill og ljóst að leikurinn myndi ráðast á því hvorum megin stemmningin myndi lenda að lokum. Það gekk eftir enda réðst leikurinn á stórum skotum og nokkrum sentímetrum að lokum. 

 

Þegar ein mínúta var eftir var staðan 78-77 og Stjarnan átti boltann. Í þeirri sókn varði Bjarni Guðmann Jónsson sniðskot Marvins Valdimarssonar á magnaðan hátt og Skallagrímur gat tekið forystuna. Það hafðist ekki en hinu megin setti Tómas Heiðar risastóra þriggja stiga körfu. Magnús Þór var ekki hættur og svaraði í sömu mynt en með mann í andlitinu. Skallagrímur braut og sendi Marvin á línuna sem setti bæði skotin sín að sjálfsögðu. Staðan 83-80 þegar níu sekúndur voru eftir, það var að sjálfsögðu MG10 sem átti lokaskotið og munaði nokkrum millimetrum að boltinn rataði ofan í úr ævintýralegu skoti. Þar við sat og Stjarnan hafði tvö stig úr æsilegum leik gegn liðinu í 10 sæti sem sýnir enn og aftur hversu mögnuð Dominos deildin er þessi misserin. 

 

 

Hetjan

Marvin Valdimarsson steig heldur betur upp í kvöld. Hann endaði með 22 stig og hittu úr fimm af sex þriggja stiga skotum sínum og öll risa stór. Þrennuvaktin var einungis tveim stigum frá útkalli í kvöld en Hlynur Bæringsson endaði með 8 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar í kvöld. Helst munaði þó um gott framlag af bekk Stjörnunnar í kvöld. 

 

Hjá Skallagrím var Flenard Whitfield frábær að vanda með 27 stig, 10 fráköst og 10 fiskaðar villur. Vert er að nefna framlag Bjarna Guðmanns Jónssonar í dag. Hann kom inní byrjunarlið Skallagríms og þrátt fyrir að hann skili ekki miklu á tölfræði skýrslunni þá var varnarleikur hans og barátta til hreinnar fyrirmyndar en hann gerði leikmönnum Stjörnunnar ítrekað erfitt fyrir undir körfunni. Auk þess á Magnús Þór hrós skilið fyrir flottan leik en það sást langar leiðir á honum að hann ætlaði ekki að tapa þessum leik. 

 

 

Kjarninn

 

Skallagrímsmenn geta verið stoltir af frammistöðu sinni í dag. Að því sögðu þá mega þeir alveg vera súrir með að hafa glutrað leiknum frá sér eftir frábæra byrjun. Liðið hitti ekki skotum í lokin til að koma sér í góða stöðu og töpuðu klaufalegum boltum. Ljóst er að menn eiga einbeita sér að leiknum og spila fyrir hvorn annan. Frammistaðan í kvöld var fyrir liðið og lögðu allir eitthvað í púkk. Ef liðið nær að halda ákefðinni og greddunni sem það sýndi í kvöld  í næstu leikjum er engum blöðum um það að fletta að Skallagrímur mun vinna fleiri leiki á þessu tímabili. 

 

Þrátt fyrir dapra byrjun Stjörnunnar í leiknum þá sýndi liðið loksins þá hugrekki og vilja til að vinna leikinn sem því vantaði í síðasta leik. Sóknarleikurinn varð þolinmóðari og skynsamari, fyrir vikið opnuðust réttu mennirnir og yfirvegunin varð meiri í öllum aðgerðum. Með sigrinum jafnaði Stjarnan KR og Tindastól að stigum en sitja enn í þriðja sæti vegna innbyrgðis viðureigna. Anthony Odunsi átti sérlega dapran dag og ljóst að garðbæingar verða að fá meira frá honum ef liðið ætlar sér í alvöru að keppa við hin efstu liðin. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn leiksins 

 

Viðtal við Hrafn Kristjánsson þjálfara Stjörnunnar eftir leik

Viðtal við Marvin Valdimarsson leikmann Stjörnunnar eftir leik

Viðtal við Finn Jónsson þjálfara Skallagríms eftir leik

 

 

Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson

 

Fréttir
- Auglýsing -