spot_img
HomeFréttirGlittir í þann stóra hjá Hólmurum

Glittir í þann stóra hjá Hólmurum

 
Snæfell hefur tekið 2-1 forystu í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar karla eftir sterkan 85-100 sigur á Keflavík í Toyota-höllinni í dag. Töluverð spenna ríkti fyrir leiknum þar sem Nick Bradford lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík en hann var stigahæstur í tapliði heimamanna með 26 stig og hefur því greinilega engu gleymt í Keflavíkurbúningnum. Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur í liði Hólmara með 29 stig og 13 fráköst en Snæfell hafði mikla yfirburði í fráköstunum og ýttu Keflvíkingum út úr vel flestum sínum aðgerðum. Liðin mætast svo í sínum fjórða leik á mánudag þar sem Snæfell getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri en það yrði þá fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í sögu félagsins.
Gestirnir úr Stykkishólmi mættu ákveðnir til leiks í Toyota-höllina og komust fljótlega í 7-15 eftir um 5 mínútna leik en þá tóku Keflvíkingar leikhlé og réðu sínum ráðum. Lítið gekk þó hjá heimamönnum og leiddu Hólmarar 15-27 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Martins Berkis var að leika af mikilli festu í liði Hólmara sem einnig voru einráðir í frákastabaráttunni. Vörn heimamanna var vart skugginn af sjálfri sér en hún átti þó eftir að batna aðeins í öðrum leikhluta.
 
Nick Bradford kom muninum undir 10 stig er hann skoraði og fékk villu að auki og staðan 24-33 Snæfell í vil. Heimamenn voru þó ekki að sýna sitt rétta andlit á heimavelli þar sem þeir höfðu aðeins tekið þrjá þrista í leiknum á um 15 mínútum gegn 11 þristum frá Snæfell. Óvanaleg sjón í Toyota-höllinni því vanalega eru Keflvíkingar ekki feimnir við að skjóta á sínum eigin heimavelli.
 
Forysta Snæfells tórði í svona 10 stigum það sem eftir lifði annars leikhluta og héldu þeir þessum mun aðallega með því að hafa betur gegn gestgjöfum sínum í fráköstunum. Það urðu svo gríðarleg fagnaðarlæti í Keflavíkurstúkunni þegar Hlynur Bæringsson fékk sína fyrstu villu í leiknum eftir að hafa leikið villulaust í næstum því 20 mínútur. Hólmarar höfðu forystuna í hálfleik 36-47 þar sem Nick Bradford var stigahæstur hjá Keflavík með 10 stig en Hlynur Bæringsson var með 9 stig og 5 fráköst hjá Snæfell.
 
Keflavík byrjaði síðari hálfleik 5-0 þar sem Gunnar Einarsson gerði sig líklegan til stórræða. Nick Bradford fylgdi í kjölfarið og þá vaknaði Urule Igbavboa einnig í liði Keflavíkur og heimamenn færðust nær. Nick Bradford nældi í fjögurra stiga sókn fyrir heimamenn þegar brotið var á honum í þriggja stiga skoti og boltinn fór rétta leið. Svellkaldur Nick setti vítið niður og staðan orðin 52-55 og Keflvíkingar búnir að brenna á braut myndarlegt forskot Hólmara.
 
Eftir um 26 mínútna leik fékk Urule sína fyrstu villu í liði Keflavíkur og ótrúlegt að þessi stóri og hreyfanlegi leikmaður hafi ekki látið betur fyrir sér finna fyrr í leiknum. Hólmarar höfðu forystuna en Keflvíkingar voru komnir með frumkvæðið og náðu að minnka muninn í tvö stig 64-66 eftir þriggja stiga körfu frá Nick Bradford og allt orðið vitlaust í Keflavíkurstúkunni. Hlynur Bæringsson vildi ekki sjá að Keflvíkingar kæmust nærri en þetta og vippaði sér upp í þriggja stiga skot þegar sex sekúndur voru eftir og smellti honum niður, staðan 64-70 fyrir Snæfell fyrir fjórða leikhluta.
 
Stuðningsmenn Keflavíkur hugsuðu sér nú gott til glóðarinnar enda komin rífandi stemmning í leikmannahóp heimamanna, eða þangað til gestirnir gerðu út um leikinn á upphafsmínútum fjórða leikhluta. Pálmi Freyr Sigurgeirsson byrjaði á þrist og skömmu síðar mætti Martins Berkis með annan slíkan og þetta virtist duga til að rífa tennurnar úr vörn heimamanna því staðan var skyndilega orðin 66-81 með 11-2 byrjun gestanna á lokasprettinum.
 
Talandi dæmi um leikinn og undirstrikun á því að Keflavík myndi ekki ná að klóra í bakkann á nýjan leik var þristur sem Hlynur Bæringsson setti sem jók muninn í 74-87, boltinn dansaði á hringnum og lak svo ofan í. Skömmu síðar hélt Hlynur af velli með 5 villur í liði Snæfells en hann lauk leik með 29 stig og 13 fráköst, glæst dagsverk hjá þessum öfluga spilara.
 
Egill Egilsson hafði svo lokaorðið fyrir gestina er hann breytti stöðunni í 82-100 með þriggja stiga körfu en lokatölur urðu 85-100 Snæfell í vil. Hólmarar leiða því einvígið 2-1 og er þetta í fyrsta sinn í úrslitaseríu sem félagið vinnur tvo leiki því í síðustu þremur seríum um titilinn hefur Snæfell tapað 3-1, 3-1 og 3-0.
 
Eins og fyrr segir var Hlynur Bæringsson maður leiksins með 29 stig og 13 fráköst. Næstur honum í liði Snæfells var Sigurður Þorvaldsson með 17 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Martins Berkis gerði svo 14 stig í leiknum og var mjög beittur í fyrri hálfleik. Jeb Ivey stýrði sóknarleik Hólmara af festu með 11 stig og 11 stoðsendingar.
 
Hjá Keflavík var Nick Bradford með 26 stig og 4 fráköst en hann var ein af helstu vítamínssprautum liðsins þegar Keflavík var að nálgast gesti sína í leiknum. Hörður Axel Vilhjálmsson bætti við 20 stigum en var of þögull framan af leik, Hörður var einnig með 7 stoðsendingar. Urule Igbavboa var svo með 13 stig og 5 fráköst hjá Keflavík.
___________________________________________________________________
 
Byrjunarliðin:
 
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson, Nick Bradford, Jón N. Hafsteinsson, Urule Igbavboa.
 
Snæfell: Jeb Ivey, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Þorvaldsson, Martins Berkis, Hlynur Bæringsson.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson
 
Ljósmynd/ Hlynur Bæringsson setti niður 4 af 9 þristum sínum í leiknum, ansi margir þristar fyrir leikmann í miðherjastöðu og síður en svo slök nýting hjá kappanum.
Fréttir
- Auglýsing -