spot_img
HomeFréttirGlímum við besta frákastaliðið í deildinni

Glímum við besta frákastaliðið í deildinni

11:07 

{mosimage}

Toppliðin Snæfell og KR mætast í Stykkishólmi í kvöld kl. 19:15 þegar 12. umferð Iceland Express deildar karla fer af stað. Alls verða fjórir leikir og má þar m.a. nefna nágrannaslag Hamars/Selfoss og Þórs frá Þorlákshöfn en gera má ráð fyrir snörpum Suðurlandsskjálfta í Hveragerði í kvöld.

 

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, sagði í samtali við Karfan.is að þrátt fyrir KR sigur gegn Snæfell í fyrstu umferð mótsins hafi Snæfellingar pakkað þeim saman í fráköstum. „Við sáum þá líka pakka Keflavík saman í fráköstum í síðasta leik og við þurfum að berjast um hvern einasta bolta í kvöld,“ sagði Benedikt. „Það er erfitt að dekka stóru mennina þeirra þar sem þeir hafa um fimm tveggja metra menn í liðinu og ég á von á mikilli stöðubaráttu. Spurningin er hvort við náum að keyra upp hraðann eða hvort Snæfell nái að halda honum niðri,“ sagði Benedikt.

 

Aðspurður hver munurinn væri á KR og Snæfell svaraði Benedikt því að Snæfellingar væru sterkir á hálfum velli en KR væri hugsanlega meira lið á fullum velli. Hvað sem því líður þá er toppslagur Snæfells og KR leikur umferðarinnar og það lið sem hefur sigur tekur forystuna á toppnum.

 

Hamar/Selfoss tekur á móti grönnum sínum úr Þorlákshöfn í kvöld en Þórsarar er tiltölulega nýkomnir úr erfiðum leik gegn Íslandsmeisturum Njarðvíkur þar sem þeir töpuðu í framlengdum leik. Hvort sá leikur hafi náð að blása byr í segl nýliðanna kemur í ljós í kvöld í nágrannarimmunni. Ekki er útséð með hvernig Þórsarar ætla að stöðva George Byrd svo von er á skemmtilegum leik þar.

 

Í Njarðvík mætast Íslandsmeistararnir og ÍR og hafa þeir grænu ærna ástæðu til þess að mæta sem grenjandi ljón í leikinn. Einar Árni var ekki sáttur við frammistöð sinna leikmanna gegn Þór Þorlákshöfn þrátt fyrir sigurinn og ÍR sló Njarðvíkinga út úr Lýsingarbikarnum í ár í fyrstu umferð keppninnar. ÍR-ingar hafa sýnt það að þeir eru til alls líklegir og nái þeir upp stöðugleika í sínum leik þá gætu þeir vel sótt stig í Ljónagryfjuna.

 

Á Sauðárkróki mætast Tindastóll og Haukar. Hafnfirðingar eru í sömu vondu málum og í fyrra, 1. deildin togar af alefli í þá en þeir binda miklar vonir við nýja bandaríska leikmanninn sinn Wayne Arnold. Stólarnir eru hvergi nærri því úr botnbarátunni því aðeins 2 stig skilja þá frá Haukum. Hafnarfjarðarsigur í kvöld myndi óneitanlega auka á spennuna við botninn svo gera má ráð fyrir hörkuleik.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -