spot_img
HomeFréttirGlimrandi lokasprettur Njarðvíkinga tryggði tvö stig

Glimrandi lokasprettur Njarðvíkinga tryggði tvö stig

Ljónynjurnar lögðu Hauka á heimavelli í Subway-deildinni í kvöld 78-60. Lengst af var leikurinn jafn og spennandi en undir lok þriðja leikhluta hófu Njarðvíkingar að slíta sig frá gestunum. Andela Strize var stigahæst Njarðvíkinga í kvöld með 23 stig og hjá Haukum var Tinna Alexandersdóttir atkvæðamest með 21 stig.

Keira Robinson lék ekki með Haukum í kvöld vegna meiðsla og fylgdist því með af tréverkinu í borgaralegum klæðum. Þá voru Haukar eins og gefur að skilja án Helenu Sverrisdóttur sem nýverið lagði körfuboltaskóna á hilluna.

Það helsta

Jana og Hesseldal gáfu Njarðvík góða byrjun í kvöld en Haukar létu ekki stinga sig af og jöfnuðu leikinn sem stóð 20-20 eftir upphafs leikhlutann. Í öðrum leikhluta var áfram jafnt með liðunum og Tinna kom gestunum yfir með flautuþrist og því leiddu Haukar 35-36 í hálfleik.

Staðan var enn jöfn 45-45 um miðbik þriðja leikhluta en þá fóru Njarðvíkingar að herða tökin. Síðustu fimm mínúturnar í þriðja unnu heimakonur 12-6 og leiddu 57-51 fyrir fjórða leikhluta. Í fjórða leikhluta sigldu Njarðvíkingar svo fram úr gestunum og unnu leikhlutann 21-9 og leikinn 78-60 eins og áður greinir. Sterkur lokaleikhluti hjá Njarðvíkingum þar sem þær Krista Gló og Hulda María létu vel að sér kveða.

Anðela Strize var stigahæst hjá Njarðvíkingum í kvöld með 23 stig (4-7 í þristum), 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Ena Viso var henni næst með 20 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar og Emilie Hesseldal var grátlega nærri þrennunni með 16 stig, 20 fráköst og 9 stoðsendingar en þessi öflugi miðherji hnuplaði líka 6 boltum. Hjá Haukum átti Tinna Alexandersdóttir flottan leik með 21 stig og 3 fráköst og Rósa Björk Pétursdóttir bætti við 15 stigum og 9 fráköstum.

Njarðvíkingar leika næst í deildinni á útivelli gegn Grindavík í Smáranum og verður það þeirra síðasti deilarleikur fyrir jól en Haukar fá Breiðablik í heimsókn og eru báðir leikirnir 12. desember.

Tölfræði leiks

Gangur leiksins:

12-11, 20-20

32-28, 35-36

45-45, 57-51

67-55, 78-60

Fréttir
- Auglýsing -