spot_img
HomeFréttirGlæstur endasprettur Grindavíkur kom þeim á toppinn (Umfjöllun)

Glæstur endasprettur Grindavíkur kom þeim á toppinn (Umfjöllun)

23:15
{mosimage}

(Petrúnella Skúladóttir sækir að Kristrúnu Sigurjónsdóttur) 

Grindvíkingar eru komnir á topp Iceland Express deildar kvenna með Keflavík eftir frækinn 80-66 sigur á Íslands- og bikarmeisturum Hauka í Röstinni í kvöld. Tiffany Roberson var fyrirferðamikil að vanda í Grindavíkurliðinu og setti niður 25 stig, tók 20 fráköst og setti niður öll 7 vítin sín í leiknum. Heimaliðið í gulu gerði út um leikinn í upphafi fjórða leikhluta en fram að því hafði leikurinn einkennst af spennu og baráttu. 

Kiera Hardy gerði Grindvíkingum lífið leitt í upphafi leiks og sallaði niður 14 stigum yfir Grindvíkinga. Haukar beittu svæðisvörn og pressu á Grindavík sem fann ekki taktinn í upphafi leiks. Haukar komust í 6-12 en Grindvíkingar voru aldrei langt undan og leiddu Haukar 22-23 eftir fyrsta leikhluta. 

Varnarleikurinn og baráttan var í fyrirrúmi í öðrum leikhluta en Grindvíkingar náðu forystunni og komust í 36-31. Ingibjörg Jakobsdóttir kom sterk til leiks fyrir Grindavík í öðrum leikhluta og setti niður 11 stig á svæðisvörn Hauka sem skildi skyttur Grindavíkur oft og tíðum eftir galopnar og sjaldnast veit það á gott og hvað þá á heimavelli Grindavíkur. Þriggja stiga nýting Grindavíkur í leiknum var þokkaleg, liðið setti niður 9 þrista í 32 tilraunum.  

Staðan í leikhléi var svo 41-34 fyrir Grindavík og Telma B. Fjalarsdóttir miðherji Hauka komin með þrjár villur og Unnur Tara Jónsdóttir kenndi sér eymsla í öðru hné eftir samstuð við Tiffany Roberson. 

{mosimage}

(Kristrún Sigurjónsdóttir til varnar gegn Tiffany Roberson)

Haukar gerðu fjögur fyrstu stigin í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í 41-38 en fremur lítið var skorað og Haukar unnu þriðja leikhluta 14-16 og staðan því 55-50 Grindavík í vil fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Sóknarleikur beggja liða var nokkuð vandræðalegur fyrstu þrjá leikhlutana og varnirnar þeim mun grimmari en í fjórða leikhluta sprungu Haukar og Grindavík stakk af. 

Grindvíkingar hófu síðasta leikhlutann með miklum látum og gerðu 8 fyrstu stigin og breyttu stöðunni snögglega ía 63-50. Skömmu síðar setti Joanna Skiba niður þrist og staðan 66-52 og þá var tilfinningin komin í herbúðir Grindavíkur sem kláruðu leikinn örugglega.  

Kiera Hardy gerði 22 stig og tók 10 fráköst í liði Hauka en henni næst var fyrirliðinn Kristrún Sigurjónsdóttir með 12 stig og 5 fráköst. Þær Unnur Tara Jónsdóttir og Ragna Brynjarsdóttir léku einnig ágætlega fyrir Hauka báðar með 11 stig.  

Hjá Grindavík var Roberson með 41 í framlagseinkunn, 25 stig, 20 fráköst og 2 stolna bolta, henni næst kom Petrúnella Skúladóttir með 14 stig og 5 fráköst en Joanna Skiba setti niður 7 stig og gaf 11 stoðsendingar. Þá átti Jovana Stefánsdóttir góðan dag sem og þær Ingibjörg Jakobsdóttir og Íris Sverrisdóttir sem komu með mikla baráttu af tréverki Grindavíkur. 

Tölfræði leiksins 

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -