Opinberi bolti Eurobasket 2017 hefur hlotið mikla gagnrýni af leikmönnum og liðum mótsins sem telja hann ekki til þess fallinn að leika með á þessu stigi.
Samtök landsliðsfyrirliða hafa sameinast um að skrifa forseta FIBA bréf þar sem þess er krafist að boltinn verði ekki notaður aftur að þessu móti loknu. Einnig hafa fyrirliðarnir beðið um að leikmenn verði með í ráðum þegar boltanir verða ákveðnir á stórmótum í framtíðinni.
„Mér finnst bara að það ætti að reka manninn sem framleiddi þennan bolta, hvort sem það er hjá FIBA eða Molten. Hann er alveg gjörsamlega hræðilegur þessi bolti. Það má bæta við nokkrum vælu emojis við þessi ummæli mín.“ sagði Jón Arnór og glotti.
„Það er óeðlilegt þegar öll lið taka sig saman í evrópukeppni og eru að kvarta yfir boltanum. Við höfum æft með þessa bolta í mánuð og það hefur ekkert verið gert í þessu.“
„Við vorum að tapa boltanum og þeir líka á klaufalegan hátt. Boltinn bara skýst eftir gólfinu. Það er eins og þetta sé eitthvað svell. Þetta hjálpar grúvinu ekki að spila með bolta sem þú getur ekki haldið á.“
„Þetta er ekkert sem við getum stjórnað núna. Þetta er bara áfram gakk og verðum að gleyma þessu, kannski verða þeir betri með tímanum.“ sagði Jón svo að lokum.
Viðtalið við Jón Arnór má finna í heild sinni hér að neðan en umræðan um boltann hefst eftir tvær mínútur og átján sekúndur.
Mynd / FIBA