18:54
{mosimage}
Þá er fyrsta keppnisdegi á Norðurlandamóti kvenna lokið en mótið fer fram í Gentofte í Danmörku. Heimamenn Danir tóku sig til í dag og lögðu nágranna sína frá Svíþjóð 65-64 í síðari leik dagsins. Í fyrri leiknum höfðu Norðmenn betur á móti Finnum og hafa úrslit dagsins eflaust komið mörgum á óvart. Fyrir mót var það meining margra að Svíar og Finnar væru sigurstranglegustu lið mótsins en svo bregðast krosstré sem önnur tré.
Mikil spenna var í leik Dana og Svía og var hann hnífjafn frá upphafi til enda. Camilla Blands var stigahæst í liði Dana með 18 stig og 7 fráköst. Anna Bartold fór fyrir liði Svía með 14 stig og 7 fráköst. Það var Simona Bartkova sem kom Dönum í 65-64 með tveggja stiga skoti þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka.
Á morgun mætast í fyrsta leik dagsins, Ísland og Svíþjóð, kl. 14.30 og svo Danmörk og Finnland kl. 16.45. Hægt er að nálgast beinar tölfræðilýsingar með því að smella hér.