spot_img
HomeFréttirGeggjuð endurkoma Þórsara í síðari hálfleik dugði ekki til

Geggjuð endurkoma Þórsara í síðari hálfleik dugði ekki til

Þór-Stjarnan 83-86

Áður en leikur liðanna hófst minntust leikmenn beggja liða og starfsmenn, Ágústs Herberts Guðmundssonar sem lést þann 1. janúar 2021. Ágúst var dáður af öllum sem hann þekktu og körfuboltasamfélagið sá á eftir góðum félaga sem hafði mikil áhrif hvar sem hans naut við. Stundin í kvöld var hjartnæm og lesin var upp hugljúf minning um mætan mann sem féll frá langt fyrir aldur fram. Þórsliðið lék svo með sorgarbönd til minningar um Ágúst.

Hvíli Ágúst Herbert Guðmundsson í guðs friði

Íþróttahöllin á Akureyri 17. Janúar 2021. Þór-Stjarnan 83:86

Gangur leiks eftir leikhlutum 14:26 / 14:24 / 30:12 / 25:24

Það voru án efa fáir sem hefðu spáð því að lokamínútur leiks Þórs og Stjörnunnar yrðu eins og raunin varð á þ.e. háspenna þar sem í raun allt gat gerst. Stjörnumenn hófu leikinn af krafti og höfðu tuttugu og tveggja stiga forskot í hálfleik 28:50. En mest varð forskotið 27 stig 23:50.

Í fyrri hálfleiknum var margt sem fór úr skorðum hjá Þór, slök vítanýtin og mörg misnotuð skot sem á venjulegum degi á að detta niður. Útlið dökk og án ef verið farið að fara um þá stuðningsmenn Þórs sem horfðu á útsendinguna.

Það var allt annað að sjá til Þórs strax í upphafi síðari hálfleiks og ljóst að menn ætluðu ekki að leggja ára í bát svo glatt. Srdjan lagði línurnar með fyrstu körfu síðari hálfleiks þegar hann setti niður þrist. En þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fékk Dedrick sína aðra óíþróttamannslegu villu og var þar með rekin af velli. Og fór þá um menn. En viti menn þetta þjappaði liðinu enn meira saman og ungu strákarnir sem fengu aukin spilatíma létu til sín taka og áttu stóran þátt í endurkomu liðsins sem var mögnuð.

Þórsarar tóku að saxa jafnt og þétt á forskot gestanna og þegar þriðji leikhluti var allur var munurinn komin niður i fjögur stig 58:62. Þór vann sem sagt leikhlutann 30:12.

Þórsliðið var komið á bragðið og menn sáu að þeir gátu vel staðið í gestunum og gerðu heiðarlega tilraun til að jafna leikinn og eyja von um sigur. Gestirnir náðu um tíma átta stiga forskoti en Þórsarar neituðu að gefast upp.

Þegar tæp mínúta lifði leiks var munurinn aðeins tvö stig 81:83 og gestirnir með boltann og sókn þeirra endar á vítalínunni þar sem Ægir Þór hitti  úr öðru skotinu 81:84 og Þór með boltann.

Næsta sókn Þórs tók snöggan endi þegar Srdjan missti boltann. Kolbeinn braut á Hlyni Bærings sem fór á vítapunktinn og hitti úr báðum skotunum 81:86. Það var svo Hlynur Freyr sem átti lokaorðið fyrir Þór og setti niður sniðskot 83:86 og gestirnir fögnuðu þriggja stiga sigri 86:83.

Segja verður að leikmenn Þórs hafi verið sjálfum sér verstir í fyrri hálfleik og 57% vítanýting eitthvað sem er í raun ekki boðlegt. Þór fékk 28 víti en aðeins 16 rötuðu rétta leið. Það eitt og sér réði kannski ekki úrslitum en vó vissulega þungt í kvöld.

En eins og Bjarki bendir á þá var það engin þrumuræða í hálfleik sem varð upphafið að endurkomunni heldur hafi drengirnir talað sig saman. „Þeir vissu að þeir gætu betur og voru staðráðnir í að sýna að það. Það var svo gaman að sjá hvað þeir komu áræðnir til leiks í síðari hálfleik. Ég vil bara hrósa ungu strákunum að koma svona sterkir inn og fylla skarð Dedricks.

Við vorum að spila á móti eina besta liði landsins vel þjálfuðu liði og við enn að slípa okkur saman annar leikurinn um  helgina og súrt að þetta skildi fara svona“ sagði Bjarki Ármann í leikslok.

Í liði Þórs var Srdjan stigahæstur með 26 stig og 5 stoðsendingar, Andrius var með 23 stig og 10 fráköst, Ivan 17 stig og 11 fráköst, Ragnar var með 6 stig og 4 fráköst, Smári Jóns 3 stig, Dedrick 3 stig, Kolbeinn Fannar 3 stig og 2 fráköst, Hlynur Freyr 2 stig og 4 fráköst.

Í liði Stjörnunnar voru þeir Mirza, Hlynur Bærings og Gunnar Ólafs með 16 stig hver, Arnþór Freyr 12 stig, Ægir Þór 7 stig og 7 fráköst og 11 stoðsendingar, Orri Gunnarsson 6 stig, Dúi Þór og Friðrik Anton 5 stig hvor og Hugi Hallgríms 2 stig.

Næsti leikur Þórs verður útileikur gegn ÍR sem fram fer fimmtudaginn 21. janúar.

Myndasafn (Palli Jóh) 

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir & viðtal / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -