spot_img
HomeFréttirGatorade-leikmaður þrettándu umferðar: Magnús Þór Gunnarsson

Gatorade-leikmaður þrettándu umferðar: Magnús Þór Gunnarsson

Keflvíkingar gerðu góða ferð norður í Skagafjörð í þrettándu umferð Iceland Express deildar karla og skelltu heitum Stólum 72-91 þar sem Magnús Þór Gunnarsson fór fyrir Keflavíkurliðinu með 25 stig og 10 fráköst!
,,Þetta gekk vel hjá okkur og Tindastóll átti aldrei séns frá fyrstu mínútu,“ sagði Magnús í samtali við Karfan.is. En var ekkert erfitt að innleiða nýjan mann í þetta sem kom beint í leik úr flugvélinni?
 
,,Hann er í formi og leit vel út á æfingu í gær en við erum bara mjög ánægðir og stoltir af Val Orra sem lítur mjög vel út um þessar mundir. Þá styttist í að Arnar Freyr fari að koma á æfingar en hann er í dag í skoðun hjá lækni eftir aðgerðina,“ sagði Magnús en meiðsli hafa verið að hrjá Arnar eins og kunnugt er sem hann hefur nú farið í uppskurð við.
 
Magnús Þór Gunnarsson er ekki að ósekju valinn Gatorade-leikmaður þrettándu umferðar með 25 stig og 10 fráköst í Síkinu gegn sjóðheitum Tindastólsmönnum sem nú hafa verið snöggkældir.
 
Fleiri voru tilkallaðir en í kosningu fengu þeir Jón Ólafur Jónsson og Cameron Echols einnig nokkur atkvæði ljósmyndara/fréttaritara Karfan.is en Magnús vann þó með miklum yfirburðum.
 
 
Mynd/ [email protected] Magnús Þór vildi ekki heyra á annað minnst en að hafa Pétur Guðmundsson með sér á myndinni enda ekki á hverjum degi sem skotbakvörðurinn knái rífur niður 10 fráköst í leik!   
Fréttir
- Auglýsing -