Paul Pierce tilkynnti það síðastliðið haust að yfirstandandi tímabil yrði hans síðasta í NBA deildinni. Pierce sem er 39 ára á að baki einn NBA meistaratitil með Boston Celtics árið 2008.
Pierce var valinn tíundi í nýliðavali NBA deildarinnar árið 1998 af Boston Celtics. Hann hafði leikið með Kansas háskólanum í þrjú ár við góðan orðstír. Á árunum 1998-2013 lék Pierce með Boston Celtics og var tíu sinnum valinn í Stjörnuliðið auk þess sem hann var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar árið 2008 er liðið varð meistari.
Paul Pierce var síðan skipt til Brooklyn Nets ásamt Kevin Garnett árið 2013 en þar var hann einungis í eitt ár en lítið gekk. Þaðan fór hann til Washington Wizards þar sem hann átti ljómandi fínt tímabil. Frá árinu 2015 hefur hann svo endurnýjað kynni sín við Doc Rivers hjá Los Angeles Clippers en Rivers þjálfaði Boston einmitt um árabil.
Pierce hefur gefið það út að hann muni hætta sem leikmaður Boston Celtics þar sem hann eyddi 15 árum af ferli sínum. Ljóst er að Pierce er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Celtics.
Los Angeles Clippers féll svo úr leik í gærkvöldi eftir tap gegn Utah Jazz í átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar. Það þýddi að Pierce hafið leikið sinn síðasta leik í NBA deildinni. Myndband til að kveðja Paul Pierce úr deildinni var útbúið þar sem fyrrum samherjar hans og mótherjar segja frá kynnum sínum. Þarna eru stórstjörnur á borð við Kobe Bryant, Oscar Robertson, Kevin Garnett og fleiri.
Myndbandið má finna hér að neðan: