spot_img
HomeFréttirGarðbæingar á toppnum í fyrsta sinn

Garðbæingar á toppnum í fyrsta sinn

 
Í kvöld fór fram leikur Stjörnunnar og Hamars í Ásgarði, heimavelli Stjörnunnar. Bæði lið hafa komið nokkuð á óvart það sem af er vetri og sátu Stjörnumenn í 3.sæti fyrir leikinn á meðan Hamarsliðið var í því áttunda, en með sigri gat Stjarnan lyft sér á topp deildarinnar vegna innbyrðisviðureigna við önnur lið.
Það var ekki að sjá hvort liðið væri ofar á stigatöflunni í fyrsta leikhluta. Lítið gekk hjá Stjörnumönnum meðan Hamarsmenn komu augljóslega vel tilbúnir í leikinn og var baráttan nánast öll þeirra megin fyrstu mínúturnar. Svæðisvörn Hvergerðinga gerði góða hluti og Marvin og Dabney voru beittir fram á við. Stjörnumenn náðu þó að halda í við Hamarsmenn og var staðan eftir fyrsta fjórðung 15-19, gestunum í vil.
 
Stjörnumenn komu mun ákveðnari í 2.leikhluta en í þann fyrsta. Þeim tókst fljótlega að jafna við sunnlendingana og komast yfir, en gestirnir voru þó aldrei langt undan. Í þau skipti sem Stjarnan virtist ætla að sigla fram úr komu Hamarsmenn alltaf sterkir til baka og þurrkuðu út þann mun. Fór svo að í hálfleik hafði Stjarnan nauma forystu, 36-35.
 
Í þriðja fjórðung héldu liðin áfram þar sem frá var horfið og var leikurinn gríðarlega jafn. Liðin skiptust á að hafa forystu og var spennan í algleymingi. Eftir góða þriggja stiga körfu frá Justin Shouse leiddi Stjarnan þó aftur með einu stigi fyrir lokafjórðunginn, 65-64 og allt útlit fyrir gríðarlega spennu í lokin.
Áhorfendur voru ekki sviknir af lokaleikhlutanum því hann var æsispennandi. Framan af var sama jafnræðið með liðunum en þegar líða tók á leikhlutann héldu Stjörnumenn uppteknum hætti frá síðustu leikjum og náðu góðum endaspretti. Sá endasprettur skilaði þeim góðum og mikilvægum 85-76 sigri sem var erfiður í fæðingu enda var Hamar síst lakari aðilinn í leiknum.
 
Stigahæstur Stjörnumanna í kvöld var að vanda Justin Shouse með 29 stig og Jovan Zdravevski skoraði 23. Andre Dabney og Marvin Valdimarsson voru allt í öllu hjá Hamri og skoraði Dabney 30 stig en Marvin 27. Eftir sigurinn er Stjarnan á toppi Iceland Express deildarinnar með betri innbyrðisviðureignir á bæði Njarðvík og KR sem eru með jafnmörg stig í sætunum fyrir neðan. Hamarsmenn halda hinsvegar áttunda sætinu.
 
 
Texti: Elías Karl Guðmundsson
Fréttir
- Auglýsing -