Það er óhætt að segja að það verði mikið um að vera þegar Stjörnuleikir KKÍ fara fram næsta laugardag í Grafarvogi. Auk hefðbundinnar dagskrár sem inniheldur Stjörnuleiki karla og kvenna, 3-stiga keppni karla og kvenna auk troðslukeppni þá verður boðið upp á stórviðburð þar sem ýmsar þekktar stjörnur munu láta ljós sitt skína.
Úrval eldri landsliðsmanna mun etja kappi við ýmsa þekkta kappa sem hafa á einhverjum tímapunkti sinnar ævi stundað körfubolta en eru allir þekktir fyrir annað í dag.
Leikið verður í 2X8mín… kannski lengur ef úthald og skemmtanagildi leyfir. Leikurinn er áætlaður klukkan 14:45 eða á milli Stjörnuleikja kvenna og karla.
Úrvalslið eldri landsliðsmanna verður skipað eftirtöldum leikmönnum:
Jón KR Gíslason
Teitur Örlygsson
Guðmundur Bragason
Guðjón Skúlason
Tómas Holton
Páll Kolbeinsson
Herbert Arnarson
Sigurður Ingimundarson
Falur Harðarson
Birgir Mikaelsson
Það er möguleiki að 1-2 leikmenn bætist í þennan hóp.
Torfi Magnússon fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari mun stýra þessum glæsilega hópi.
Þá hefur KKÍ kynnt þrjá úr Celeb-hópnum en það eru þeir Auðunn Blöndal, Sverrir Bergmann og Hilmir Snær Guðnason. Kynntir verða fleiri frægir til leiks á næstunni og fólk því hvatt til að fylgjast vel með á www.kki.is
Mynd: Hilmir Snær er landskunnur leikari en faðir hans Guðni Kolbeinsson er kannski þekktari innan körfuknattleikshreyfingarinnar fyrir þýðingar erlendra körfuknattleikshugtaka yfir á hið ástkæra ylhýra.