spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGæti átt bann yfir höfði sér eftir að hafa hrækt á gólf...

Gæti átt bann yfir höfði sér eftir að hafa hrækt á gólf Skógarsels og skemmt innanstokksmuni

Grindavík hélt sigurgöngu sinni áfram í Bónus deild karla í gærkvöldi er liðið lagði ÍR í Skógarseli, 78-87.

Leikurinn var sá sjöundi sem Grindavík vinnur í röð í deildinni, en þeir eru sem áður í efsta sæti deildarinnar með 14 stig, fjórum stigum meira en Tindastóll og Keflavík sem eru með 10 stig í 2.-3. sætinu.

Sigur Grindavíkur í gær var þó að einhverju leyti í skugga atviks sem átti sér stað í fjórða leikhluta leiksins, en þá var lykilleikmanni þeirra DeAndre Kane gert að yfirgefa leikinn af dómurum eftir að hafa fengið tvær tæknivillur.

DeAndre brást heldur illa við og eyðilagði meðal annars ruslatunnu á leiðinni sinni út úr húsinu með því að sparka henni í átt að sjálboðaliða við gæslustörf. Hér fyrir neðan má sjá mynd af gjöreyðilagðri 75 lítra ruslatunnunni sem varð á vegi hans til búningsklefa.

Gjörónýt ruslatunnan

Ekki lét hann sér nægja að skemma innanstokksmuni Skógarselsins heldur fylgdi hann á eftir með því að hrækja einnig á gólf íþróttahússins. Samkvæmt forráðamönnum ÍR varð atvikið til þess að kalla þurfti út fjóra úr gæslunni til þess að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Nokkuð ljóst er að atvikið mun draga einhvern dilk á eftir sér, þar sem Aga- og úrskurðarnefnd mun fá málið á borð sitt. Aðeins er um mánuður síðan leikmaðurinn var sektaður síðast fyrir að hafa einnig fengið reisupassann í leik Grindavíkur gegn nýliðum ÍA þann 9. október og því ekki ólíklegt að atvik gærkvöldsins ætti eftir að tryggja honum einn eða nokkra leiki í bann.

Fréttir
- Auglýsing -