Höttur vann í kvöld sinn fyrsta leik í 1. deild karla þegar liðið lagði Fjölni 83-90 í miklum slag. Fjölnismenn byrjuðu betur en féllu svo á hælana og það kunnu Hattarmenn að meta og settust við kjötkatlana. Austin Magnús Bracey fór fyrir Hetti í kvöld með 25 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar en tröllatvenna Ólafs Torfasonar dugði Fjölni ekki að sinni, Ólafur með 25 stig og 20 fráköst.
Heimamenn í Fjölni voru víst einir mættir í hús fyrstu mínútur leiksins og léku lausum hala með Ólaf Torfason í broddi fylkingar. Fjölnismenn komust í 19-4 áður en gestirnir frá Egilsstöðum rönkuðu við sér. Ólafur Torfason vippaði sér svo upp í tvo góða þrista í röð fyrir gula og kom Fjölni í 25-14 og gulir leiddu svo 27-16 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Ólafur var kominn með 13 stig. Hattarmenn sýndu batamerki undir lok fyrsta leikhluta og áttu eftir að halda sig á því sporinu næstu tíu mínúturnar.
Hattarmenn fóru fyrir alvöru að naga niður forystu Fjölnis í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn í 29-25 með 2-9 kafla í upphafi annars leikhluta. Viðar Örn Hafsteinsson spilandi þjálfari Hattar kom sínum mönnum í 35-40 með þriggja stiga körfu og gestirnir leiddu svo 40-45 í hálfleik eftir að Eysteinn Ævarsson hafði skellt niður þrist um leið og hálfleiksflautan lét í sér heyra.
Frisco Sandidge sem var með 18 stig og 13 fráköst í kvöld opnaði síðari háflleik fyrir Hött rétt eins og Eysteinn hafði lokað þeim fyrri og munurinn orðinn 8 stig, 40-48. Sveiflurnar voru nokkrar í kvöld og í einni slíkri komust gulir á ný upp að hlið Hattar og jöfnuðu 51-51 en aftur átti Eysteinn lokaorðið er flautan gall og kom Hetti í 61-63 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta.
Vörn Hattar var þétt í upphafi fjórða leikhluta og Fjölnismenn hugmyndasnauðir í sóknaraðgerðum sínum svo Höttur tók 4-10 sprett og breytti stöðunni í 65-73. Langskot heimamanna vildu ekki niður, 5 af 24 þristum rötuðu rétta leið sem gerir rétt rúmlega 20% nýtingu. Páll Fannar kveikti smá von fyrir Fjölni með þrist sem minnkaði muninn í 76-81 en Hattarmenn voru komnir með nasaþefinn af sigrinum og kláruðu dæmið 83-90 og fengu fyrir vikið sín fyrstu stig tímabilsins. Liðssigur hjá Hetti og góður varnarleikur þegar gaf á bátinn en Fjölnismenn að sama skapi værukærir og hreinlega nokkuð sundurleitur hópur í kvöld.
Austin Bracey leiddi Hött með 25 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og Viðar Örn bætti við 19 stigum og 10 fráköstum. Þá var Frisco með tvennu, 18 stig og 13 fráköst og Eysteinn Ævarsson bætti við 17 stigum. Hjá Fjölni var Ólafur Torfason með 25 stig og 20 fráköst en þeir Sims og Páll Fannar bættu báðir við 18 stigum.
Mynd og umfjöllun/ JBÓ – Austin Magnús Bracey var að daðra við þrennuna í kvöld.



