spot_img
HomeFréttirFyrsti sigurinn í höfn hjá 18 ára liðinu

Fyrsti sigurinn í höfn hjá 18 ára liðinu

 
Léttir sást í andlitum leikmanna U18 ára karlalandsliðs Íslands sem voru að leggja Norðmenn 76-65 á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins eftir tvo sára tapleiki gegn Dönum og Svíum fyrr á mótinu. Haukur Helgi Pálsson gerði 19 stig og tók 4 fráköst í íslenska liðinu og Oddur Ólafsson var með 14 stig og 5 stolna bolta.
Það tók liðin smá tíma að nudda stýrurnar úr augunum því staðan var aðeins 2-2 eftir þriggja mínútna leik. Jafnt var á öllum tölum í fyrsta leikhluta og bæði lið voru svo að segja fjarverandi í sóknarleik sínum en léku þó ágæta vörn. Norðmenn leiddu 14-15 eftir fyrsta leikhluta þar sem Hjalti Valur Þorsteinsson stal boltanum á lokasekúndunum og brotið var á honum í sniðskoti, Hjalti hitti aðeins úr öðru vítinu og því leiddu Norðmenn.
 
Í öðrum leikhluta tóku liðin heldur betur við sér og Íslendingar voru fyrri til, pressuvörn Íslands fór að gefa nokkra bolta og jaxlinn úr Hveragerði, Oddur Ólafsson, dritaði niður þremur þristum á skömmum tíma og Ísland komst í 33-19. Norðmenn tóku þá við keflinu og söxuðu forystu Íslands jafnt og þétt niður og náðu að koma muninum niður í fjögur stig og staðan 38-34 Íslendingum í vil í hálfleik.
 
Oddur Ólafsson var með 11 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar í hálfleik og honum næstur var Haukur Helgi Pálsson með 10 stig og 3 fráköst.
 
Ísland hóf síðari hálfleik 7-3 og komust í 45-37 en skömmu síðar fékk Haukur Helgi Pálsson sína fjórðu villu og hélt á bekkinn. Norðmenn nýttu sér fjarveru Hauks til hins ítrasta og smelltu niður tveimur þristum og minnkuðu muninn í 47-43. Björn Kristjánsson átti fína spretti í þriðja leikhluta þar sem hann var duglegur að sækja í teiginn og fá stóru menn Noregs upp í loftið og fiska þar á þá villur. Þá var Kristófer Acox iðinn við kolann á báðum endum vallarins en Íslendingar mættu prufa að finna hann oftar í sókninni því þó Norðmenn séu töluvert hærri kemst enginn þeirra upp á sömu hæð og Kristófer þegar kappinn hefur sig til flugs.
 
Íslendingar höfðu frumkvæðið í leikhlutanum þó Norðmenn væru aldrei langt undan og leiddu íslensku piltarnir 61-51 fyrir lokasprettinn.
 
Aldrei kom til greina í fjórða leikhluta að íslenska liðið léti sigurinn af hendi en allt annar bragur var á hópnum þegar Kristófer Acox var inni á vellinum. Kappinn kom inn af bekknum í fjórða leikhluta, stal boltanum, brunaði upp völlinn og tróð með tilþrifum. Skemmtileg rispa hjá Acox sem vafalítið var einn besti maður leiksins.
 
Þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka leiddi Ísland 75-59, Norðmenn komust ekki mikið nær og lokatölur urðu 76-65 Íslandi í vil. Haukur Helgi Pálsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 19 stig og 4 fráköst. Oddur Ólafsson gerði 14 stig og var með 5 stolna bolta, Kristófer Acox var með 11 stig, 8 fráköst, 4 stolna bolta og 3 varin skot og var að öðrum ólöstuðum besti maður íslenska liðsins í dag.
 
Ljósmynd/ Kristófer Acox treður með tilþrifum í fjórða leikhluta gegn Norðmönnum.
 
Fréttir
- Auglýsing -