spot_img
HomeFréttirFyrsti sigur vetrarins hjá Tindastól

Fyrsti sigur vetrarins hjá Tindastól

Mætingin í Síkið á Sauðárkrók hefur oft verið betri en í gærkvöld. Örlítið virtist vera farið að örla á svartsýni hjá stuðningsmönnum heimamanna eftir tvo frekar dapra leiki í Domino´s-deildinni. Augabrúnir áhorfenda ættu þó að fara að lyftast eitthvað eftir leik Tindastólsmanna í gær í Lengjubikarnum.
 
Byrjunarlið liðanna voru skipuð þeim Helga Frey, Friðriki, George Valentine, Helga Rafni og Isaac Miles fyrir Tindastól en fyrir Fjölni byrjuðu þeir Jón Sverris, Christopher Matthews, Árni Ragg, Tómas Heiðar og Arnþór Freyr. Mjög áhugavert byrjunarlið hjá Fjölni þar sem þeir spilaðu með fjóra eiginlega bakverði og greinilegt að upplegg Fjölnisliðsins er að keyra upp hraðann og hreinlega hlaupa yfir mótherjann.
 
Jafnræði var með liðunum framan af og staðan 8 – 7 eftir 4 mínútur. Þá skelltu Tindastólsmenn einfaldlega í lás og skoruðu Fjölnismenn ekki stig það sem eftir var af leikhlutanum og staðan að honum loknum var 18 – 7. Mikil barátta einkenndi varnaleik Tindastóls á þessum kafla og menn voru tilbúnir að fórna sér fyrir málstaðinn, Helgi Freyr fékk til að mynda 3 villur á innan við mínútu.
 
Fjölnismenn rönkuðu aðeins við sér í öðrum leikhluta og fóru að nýta sín skot ívið betur. Þeir byrjuðu smám saman að minnka forskot Stólanna og náðu að jafna leikinn í stöðunni 25 – 25 þegar 3 mínútur lifðu af fyrri hálfleik. Tindastólsmenn áttuðu sig þá á því að þetta gengi ekki lengur og fóru aftur að berjast um hvern bolta með Helga Rafn og Þröst í broddi fylkingar og náði og síga framúr aftur og staðan í hálfleik 35 – 29.
 
Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta og greinilegt að hvorugt liðið var til í að gefa neitt eftir. Helgi Rafn og Spicer voru atkvæðamestir og drógu vagninn fyrir sín lið. Þegar körfurnar voru taldar í lok leikhlutans höfðu liðin gert sitthvor 22 stigin og staðan 57 – 51 fyrir síðasta fjórðunginn. Hjá Fjölni sat Matthews á bekknum allan þriðja leikhlutann þar sem hann hafði fengið 4 villur í fyrri hálfleik, það kom þó kannski ekki að sök fyrir Fjölni þar sem Matthews náði sér engan veginn á strik í þessum leik og skoraði aðeins tvö stig og var örlítið pirraður yfir dómgæslunni sem var þó mjög fín yfir það heila í leiknum.
 
Lítið var skorað fyrstu mínútur fjórða leikhluta en þegar körfurnar fóru að detta komu þær flestar Tindastólsmegin. Fjölnismenn spiluðu svæðisvörn sem þeir höfðu skipt yfir í í þriðja leikhluta, en Tindastólsmenn leystu bæði svæðisvörnina og einnig pressuvörnina sem Fjölnir reyndi að notast við með miklum prýðum og voru oft að fá opin og góð skot í kjölfarið. Hefði nýting Stólanna verið betri fyrir utan þriggja stiga línuna hefði þessi sigur getað orðið mun stærri. En það kom ekki að sök og Tindastóll vann verðskuldaðan og góðan sigur á Fjölnisliði sem getur á góðum degi unnið öll lið deildarinnar. Það er bara vonandi að þessi sigur hafi sýnt Tindastólsdrengjunum það að þeir geta einnig á góðum dögum unnið öll lið deildarinnar.
 
Erlendu leikmenn Tindastóls hafa verið að fá gagnrýni á sig eftir tvo fyrstu leikina í deildinni. George Valentine stóð sig hins vegar ágætlega í þessum leik og endaði með 15 stig og 15 fráköst og var einnig með prýðisgóða nýtingu. Isaac Miles virðist hins vegar enn skorta sjálfstraust og skotnýting hans eftir því, var til að mynda með 0 af 7 í þriggja stiga skotum.
Besti leikmaður Tindastóls og besti leikmaður vallarins var án efa Drangeyjarprinsinn sjálfur, Helgi Rafn Viggósson. Hann skoraði 20 sig, tók 17 fráköst og stal 5 boltum. Glæsileg tölfræði sem þó segir ekki alla söguna því barátta hans og eljusemi var frábær og smitaði út frá sér til annarra leikmann Tindastóls. Sannur fyrirliði þar á ferð.
 
Dómarar leiksins stóðu sig með mikilli prýði og skemmtilegt að sjá að þeir Björgvin Rúnarsson og Einar Þór Skarphéðinsson höfðu betri tök á þessum leik heldur en þeir þrír dómarar sem dæmdu leik Tindastól og Stjörnunnar fyrir viku síðan. Það er kannski ekki alltaf styrkur í fjöldanum?
 
Mynd úr safni
 
Umfjöllun/ HS  
Fréttir
- Auglýsing -