spot_img
HomeFréttirFyrsti sigur Laugdæla (Umfjöllun)

Fyrsti sigur Laugdæla (Umfjöllun)

13:00

{mosimage}

Laugdælir fögnuðu sínum fyrsta sigri í 1. deild karla í körfuknattleik í vetur þegar liðið vann Hött 88-84 á Laugarvatni á laugardag. Laugdælir höfðu undirtökin allan leikinn en spennan í lokin varð mikil þegar þeir höfðu misst tvo lykilmenn út af vegna villna og Hattarmenn freistuðu þess að jafna.

Hattarmenn höfðu forystuna fyrstu mínúturnar en seinni hluta fyrsta fjórðungs spýttu Laugdælir í lófana og voru 28-17 yfir eftir fyrsta fjórðung. Þeir byrjuðu annan fjórðung betur en Hattarmenn vöknuðu seinni hluta hans og voru 46-38 undir í hálfleik. Þróunin í þriðja leikhluta var sú sama, heimamenn juku forskotið en Hattarmenn réttu sig af og 67-60 undir þegar þriðji fjórðungur hófst. Í þriðja skiptið rifu Laugdælir sig frá þeim en snarlega seig á ógæfuhliðina. Viðar Örn Hafsteinsson, fyrrum leikmaður Hattar, náði sér í tvær tæknivillur á augabragði og var rekinn út af. Skömmu síðar fór aðalstigaskorarinn Pétur Sigurðsson út af með sína fimmtu villu. Til viðbótar var Frosti Sigurðsson, annar fyrrverandi Hattarmaður, úr leik vegna hnémeiðsla.

Gestirnir minnkuðu muninn í 73-69 en frusu þar. Fyrirliðinn Óskar Þórðarson dúndraði niður tveimur körfum í röð og heimamenn náðu aftur tíu stiga forskoti. Á meðan frusu gestirnir. Enginn virtist þora að taka af skarið og leikmenn hikuðu við að skjóta þótt þeir væru komnir í loftið upp við körfuna. Þriggja stiga karfa Ragnars Ólafssonar og troðsla Jerry Cheeves voru gleðilegar og minnkuðu muninn í 86-84 en Laugdælir kláruðu leikinn frá vítalínunni.

„Það er mikill léttir að hafa unnið fyrsta leikinn en sigurinn átti að vera kominn fyrr” sagði Óskar Þórðarson, þjálfari Laugdæla, í samtali við Karfan.is eftir leikinn. „Það voru miklar sveiflur í leiknum. Við skoruðum nokkur stig og vorum á undan en síðan svöruðu þeir. Í byrjun fjórða leikhluta hélt ég að við værum með leikinn í hendi okkar en þá gerðist ýmislegt leiðinlegt. Ég fékk aðeins fyrir hjartað þegar ég áttaði mig á að Frosti væri úti og Pétur kominn með fimmtu villuna en ég hafði fulla trú á því liði sem var inn á, það barðist og við unnum.”

Aðspurður um tæknivillur Viðars sagði Óskar. „Framkoma hans var leiðinleg en hann verður að læra af þessu og þroskast.”

Því er við þetta að bæta að leik loknum komust dómarar leiksins að því að um mistök hafði verði að ræða þegar Viðar fékk seinni tæknvilluna og breyttu þeir því á leikskýrlunni.

Pétur Sigurðsson var stigahæstur í liði Laugdæla með 26 stig, Viðar Örn skoraði 19 og Bjarni Bjarnason 18, auk þess sem hann tók 11 fráköst.

Ben Hill skoraði flest stig fyrir Hött 22, Jerry Cheeves 20 og Sveinbjörn Skúlason 17.

Tölfræði leiksins

GG

Fréttir
- Auglýsing -