spot_img
HomeFréttirFyrsti sigur Lakers í Detroit í níu ár

Fyrsti sigur Lakers í Detroit í níu ár


09:19:52

LA Lakers áttu ekki í vandræðum með sína gömlu fjendur í Detroit Pistons í nótt þar sem þeir unnu næsta léttan sigur, 77-92 . Þetta var í fyrsta sinn í níu ár sem Lakers vinna Pistons á heimavelli, en þar er mikið skarð fyrir skildi þar sem þrír byrjunarliðsmenn, Iverson, Hamilton og Wallace, eru frá vegna meiðsla.
Kobe Bryant var stigahæstur Lakers með 30 stig og Derek Fisher var með 15, en einnig er vert að geta framlags Lamar Odom sem var með 12 stig, 10 fráköst, 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Hjá Pistons var varamaðurinn Will Bynum með 25 stig og Antonio McDyess með 14 stig og 12 fráköst.
Þetta tap Pistons þýddi það að Chicago Bulls komust upp að hlið þeirra í sjöunda sæti með sigri á Dwayne Wade og félögum í Miami Heat, 106-87 . Bulls gerðu út um leikinn í þriðja leikhluta þar sem þeir héldu Heat í 14 stigum gegn 32.
Athygli vekur að Kirk Hinrich byrjaði inná í stað nýliðans Derrick Rose, en þeir, ásamt Ben Gordon, skiptu leiktímanum í bakvarðarstöðunum samt bróðurlega á milli sín með góðum árangri. Stigahæstur Bulls var John Salmons með 27 stig, en sá hlýtur að vera ánægður að vera kominn í gott lið eftir að hafa verið framan af vetri í herbúðum Sacramento Kings, versta liðs í deildinni. Gordon var með 18 stig og Tyrus Thomas var með 15 stig og 12 fráköst.
Wade, sem er fæddur og uppalinn í Chicago átti í sjálfu sér fínan leik með 31 stig, en aðrir hjá Heat voru ekki að leggja sitt af mörkum, sérstaklega í vörninni þar sem Bulls fengu að fara sínu fram.
Loks bundu Portland Trail Blazers enda á sex leikja sigurgöngu Phoenix suns með stórsigri, 129-109 . Það dældar verulega vonir Suns á að komast í úrslitakeppnina en þeir þurfa að vinna upp fjóra leiki til að skáka Dallas Mavericks í áttunda sæti vestursins.
LaMarcus Aldridge var eins og kóngur í ríki sínu þar sem hann setti 29 stig, tók 12 fráköst og varði 3 skot, en Brandon Roy var með 26 stig og Spánverjinn Rudy Fernandez var með 23.
Gamli höfðinginn Shaquille O‘Neal var stigahæstur Suns með 20 stig og Jason Richardson var með 16.

Mynd/AFP
ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -