Nú þegar rúmlega fjórðungur er liðin af Iceland Express deild karla er vert að kíkja yfir farinn veg. Hverjir eru að standa sig, hverjir eru með spútnik lið deildarinnar og svo framvegis. KR var fyrir mótið spáð titlinum og vissulega vel að því komnir. Liðið hefur svo sem ekkert komið á óvart né valdið vonbrigðum, einfaldlega vegna þess að deildin í ár er sterk og allir geta unnið alla.
f
Það eru Keflvíkingar sem fyrir mót var spáð 5. sæti og í ljós er komið að sú spá er fokin um veður og vind. Keflvíkingar hafa verið ósigrandi í byrjun móts og búnir að sigra "risana" fjóra sem spáð var sætunum fyrir ofan þá. Allt stefnir í það Keflvíkingar klári fyrri hluta mótsins ósigraðir. Lukkudísirnar voru með Keflvíkingum í ár hvað varðar "kana happadrættið" en þeir Tommy Johnson og Bobby Walker hafa lyft leik liðsins á annað plan (ef miðað er við síðasta ár)
Grindvíkingar sem spáð var þriðja sæti byrjuðu mótið skelfilega með stórtapi gegn Keflvíkingum en síðan þá hafa þeir ekki tapað leik og eru sem stendur í 2. sæti. Jonathan Griffin hefur leitt liðið til sigurs í nokkrum leikjum og minna hefur farið fyrir Páli Axel Vilbergssyni þrátt fyrir að hann sé að setja um 18 stig í leik. Formúlan virðist vera að virka hingað til fyrir Grindvíkinga og eru þeir til alls líklegir í ár með Friðrik Ragnarsson í brúnni.
Snæfellingar eru líklega það lið sem flestir bjuggust við sterkari í ár. Liðinu var fyrir mót spáð 2 sæti en standa nú 4-7 sæti með hlutfallið 3-3. Ljósið hjá Snæfellingum er líklegast Sigurður Þorvaldsson sem er greinilega að finna sína fyrri fjöl og er að spila glimmrandi vel það sem af er móti. Hlynur Bærings er búin að vera nokkuð traustur að vanda og svo er það Justin Shouse sem stjórnar leik liðsins af staðfestu. Einnig má hrósa þjálfara þeirra Geoff Kotila sem "róterar" mannskapnum gríðarlega vel og fá nánast allir leikmenn sinn möguleika í hverjum leik.
Öfugt við Snæfell þá hófu Njarðvíkingar mótið með krafti og voru ósigraðir eftir 3 leiki. En síðan spiluðu þeir gríðarlega illa gegn Keflvíkingum og töpuðu, en grátlegt tap gegn KR virtist fara illa með þá því þeir töpuðu svo mjög óvænt fyrir nýliðum Stjörnunar í síðasta leik. Þeir sendu Chuck Long heim en kauði var að skila tölum í hús sem eiga ekki að þekkjast í þessum heimshluta. Í staðinn kemur Damon Bailey sem er flestum kunnugur. Njarðvíkingar eru að spila bestu vörnina í deildinni hingað til og geta þeir huggað sig við það.
Spútnik lið deildarinnar án efa Stjarnan. Sem fyrr segir sigruðu þeir í Ljónagryfjunni og töpuðu naumt gegn sjálfum Íslandsmeisturunum í síðasta leik. Lykil leikmaður þeirra er Dimitar Karadovski. Gríðarlega skytta sem má aldrei fá frið. Þeir sendu heim Steven Thomas og kváðust vilja meiri reynslu. Meiri reynslu (og nokkur auka kíló) fengu þeir í Maurice Ingram sem hefur verið að hirða hvern frákasta titilinn á fætur öðrum í Hollensku deildinni. Kjartan A Kjartansson hefur einnig verið að koma sterkur inn hjá þeim Stjörnumönnum.
Tindastólsmenn eru með 50% vinningshlutfall líkt og þrjú liðin hér að ofan. Stólarnir hafa spilað mest megnis á 7 leikmönnum og eru það útlendingarnir 4 ásamt Ísaki Einars sem bera liðið að herðum sér. Vissulega fínn árangur hjá Stólunum og næsti leikur þeirra gegn Þór Akureyri. Þar á eftir kemur hrina af leikjum sem gætu reynst þeim erfiðir (Keflavík, Njarðvík, KR)
Þór, Skallagrímur,Fjölnir og ÍR eru sem stendur að berjast fyrir síðasta úrslitakeppnissætinu. Varla er hægt að gera upp á milli þessara fjögurra liða þó svo að ÍR-ingar og Skallagrímsmenn ættu að teljast sigurstranglegri en hin. Fjölnismenn hafa verið að berjast við útlendinga vandamál og eru sem stendur algerlega óskrifað blað. Þórsarar eiga sinn sterka heimavöll og má engin afskrifa þá. Hamarsmenn reka lestina í deildinni með aðeins einn sigur. Nýr þjálfari í brúnni eftir að Pétur Ingvarsson sagði af sér á dögunum eftir 10 ár í "blómabæ". Gaman verður að fylgjast með á næstunni hvernig Ágúst Björgvinssyni vegni með lið Hamar en kappinn er vanur mikilli sigurhefð eftir veru sína hjá kvennaliði Hauka síðastliðin ár.