spot_img
HomeFréttirFyrnasterk vörn Njarðvíkur hélt Snæfellingum fjarri

Fyrnasterk vörn Njarðvíkur hélt Snæfellingum fjarri

22:50

{mosimage}

 

(Hörður Axel fann sig vel í Njarðvíkurliðinu í kvöld) 

 

Teitur Örlygsson og lærisveinar hans í grænu lönduðu sigri í sínum fyrsta leik í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar Powerademeistarar Snæfells komu í heimsókn. Brenton Birmingham fann sig vel í Njarðvíkurliðinu í kvöld og gerði 27 stig fyrir Njarðvíkinga en Justin Shouse var atkvæðamestur í lið gestanna með 23 stig. Jafnræði var með liðunum framan af leik en vörn Njarðvíkinga var fyrnasterk og áttu Snæfellingar í mesta basli með að komast upp að körfunni. Frá þessu er greint á www.vf.is

 

 

Athygli vakti að landsliðsmiðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson var í byrjunarliði Njarðvíkur í kvöld en í síðustu viku fór hann í hjartaþræðingu þar sem hann hefur verið að finna til í hjarta um allnokkra hríð. Friðrik sagði eftir leik að hann hefði ekki fundið fyrir eymslum í leiknum en hann barðist af miklum móð og var stoðin og styttan í teig Njarðvíkinga að vanda.

 

Liðin skiptust á að skora körfur í upphafi leiks en Njarðvíkingar tóku forystuna og höfðu yfir að loknum upphafsleikhlutanum 21-13 eftir flautukörfu frá Charleston Long sem skaut næstum því frá miðjum leikvellinum og kveikti vel í sínum mönnum.

 

{mosimage}

(Hlynur Bæringsson í baráttunni að vanda)

 

Snæfellingar skiptu fljótlega yfir í svæðisvörn og hún gekk fremur illa þar sem Njarðvíkingar voru heitir við þriggja stiga línuna. Hörður Axel Vilhjálmsson var seigur í Njarðvíkurliðinu og kom grænum í 37-24 með þriggja stiga körfu þegar skammt var til hálfleiks. Liðin gengu svo til búningsklefa í stöðunni 40-26 Njarðvík í vil. Hörður Axel var með 11 stig fyrir Njarðvíkinga í hálfleik en þeir Jón Ólafur, Sigurður Þorvaldsson og Justin Shouse voru allir með sjö stig.

 

Njarðvíkingar létu forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik og leiddu 64-49 að loknum þriðja leikhluta. Þegar skammt var liðið af fjórða leikhluta var augljóst að gestirnir úr Hólminum höfðu kastað inn handklæðinu og Njarðvíkingar sigldu sigrinum örugglega í höfn.

 

Vel var mætt í Ljónagryfjuna í kvöld og er óhætt að ætla að nálægt 400 manns hefðu mætt á leikinn. Stigahæstur í Njarðvíkurliðinu var Brenton Birmingham eins og áður greinir með 27 stig en Hörður Axel Vilhjálmsson kom honum næstur með 15 stig. Í liði Snæfells gerði Justin Shouse 23 stig og Sigurður Þorvaldsson gerði 20 stig.

 

Frétt og myndir af www.vf.is

{mosimage}

(Charleston Long var drjúgur hjá Njarðvíkingum á báðum endum vallarins)  

Fréttir
- Auglýsing -