spot_img
HomeFréttirFyrirsjáanleg 8-liða úrslit?

Fyrirsjáanleg 8-liða úrslit?

01:23 

{mosimage}

 

 

Í kvöld og næstu tvö kvöld þar á eftir fara fram leikir í 8-liða úrslitum Lýsingarbikarkeppninnar. Nokkra athygli vekur að lið úr neðri deildum eru komin þetta langt í keppninni og freista þess að komast í undanúrslitin. Dagar þeirra eru þó að öllum líkindum taldir en langt er um liðið síðan öskubuskusaga átti sér stað í bikarkeppninni.

 

Fyrsti leikuinn í dag er leikur Snæfells og Hamars sem hefst kl. 15. Snæfell er um miðja 2. deild kvenna en Hamar vermir botninn í Iceland Express deild kvenna ásamt Breiðablik. Erlendi leikmaður Hamars, Latreece Bagley, mun þar líkast til gera gæfumuninn og binda enda á bikardrauma Snæfellskvenna.

 

Í Grindavík mætast heimakonur og Fjölnir kl. 19:15 og má fastlega gera ráð fyrir Grindavíkursigri. Engu að síður eru Fjölniskonur ósigraðar í 2. deild kvenna en þær hafa lítið roð í Tamara Bowie sem hefur nú gert 33,1 stig að meðaltali í leik.

 

Þó Stúdínur hafi verið að færa sig upp á skaftið í síðustu leikjum þá glíma þær við Íslandsmeistara Hauka og verður þar á brattann að sækja. Haukakonur misstigu sig lítillega gegn Keflavík og höfðu svo nauman eins stigs sigur á Grindavík í síðasta leik. Gera má ráð fyrir því að Ágúst Björgvinsson hafi stoppað í þau göt sem voru komin á Haukaliðið og að Íslandsmeistararnir mæti ferskir til leiks. Þó er vert að nefna að Stúdínur eiga titil að verja og láta hann örugglega ekki af hendi baráttulaust.

 

Eini leikurinn í 8-liða úrslitum karla í kvöld er viðureign Hamars/Selfoss og KR en leikurinn hefst kl. 19:15. KR-ingar eiga harma að hefna gegn H/S sem höfðu betur gegn toppliðinu í síðustu viðureign. Bæði lið hafa verið að spila vel að undanförnu og því má eiga von á hörkuleik.

 

Á morgun mætast Bikarmeistarar Grindavíkur og KR B(umban) og þrátt fyrir að Vesturbæingarnir hafi bætt við sig erlendum leikmanni mun það líkast til duga skammt. Á hinn bóginn hafa Grindvíkingar verið í mikilli lægð og það gæti verið tvíeggja sverð fyrir Bumbuliða. Annað hvort verða Grindvíkingar enn að sleikja sárin og öskubuskuúrslit gætu átt sér stað eða þá að Bikarmeistararnir senda enn eitt B-liðið út í kuldann.

 

Kvennaleikurinn annað kvöld er viðureign Keflavíkur og Breiðabliks. Þó Yngvi Gunnlaugsson hafi óneitanlega frískað upp á Blikastelpur þá gerir hann ekki kraftaverk á svona skömmum tíma og því ósennilegt að Blikar komist áfram í keppninni.

Síðustu tveir leikirnir í 8-liða úrslitum karla eru viðureignir FSu og Keflavíkur og ÍR og Skallagríms. Keflvíkingar hafa tapað þremur leikjum í röð til þessa og Sigurður Ingimundarson mun aldrei sætta sig við að tapa fyrir liði í 1. deild og fjórða leiknum í röð.

Skallagrímsmenn eru fullir sjálfstrausts þessa dagana eftir góðan sigur á Keflavík. Þeir eiga harma að hefna gegn ÍR sem lögðu Skallana með 13 stiga mun milli jóla og nýárs í deildinni. Þessi leikur er vafalaust mest spennandi leikur 8-liða úrslitanna og verða Borgnesingar að hitta á góðan dag ætli þeir sér sigur í Seljaskóla. ÍR-ingar hafa verið á góðri siglingu að undanförnu og gerðu Njarðvíkingum smávægilega skráveifu í síðasta deildarleik en urðu að sætta sig við 15 stiga ósigur.

 

Flestum gæti þótt úrslitin ráðin í 8-liða úrslitum en þetta er bikarkeppnin og þar getur allt gerst, einn leikur, einn séns. Minni spámennirnir, þ.e.a.s. liðin sem leika ekki í efstu deild, þykja ekki sigurstrangleg og jafnan er það mikið áfall fyrir lið í efstu deild að detta út úr bikarkeppninni gegn liði í neðri deild. Allir vilja komast í Laugardalshöllina og leika frammi fyrir fjölmenni og á endanum lyfta Lýsingarbikarnum á loft. Það yrði nú saga til næsta bæjar ef það lið yrði ekki í efstu deild.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -