Herslumuninn vantaði og þá hefðu Þjóðverjar þurft að krjúpa gegn Íslendingum í Mercedes Benz Arena í dag þegar liðin opnuðu B-riðil á EuroBasket. Dirk Nowitzki og félagar sluppu með 71-65 sigur gegn Íslandi og mega prísa sig sæla með það. Jón Arnór Stefánsson átti magnaðan leik, svo góðan að þeir í Unicaja hljóta að spyrja sig hvern fjárann þeir séu að gera! Jón lauk leik með 23 stig, 5 stoðsendingar og eitt frákast. Hlynur Bæringsson var einnig frábær og þeir Haukur Helgi og Hörður Axel áttu afar sterkar rispur.
Þegar heimamenn í Þýskalandi hótuðu að stinga af settu okkar menn í gang og hótuðu að gera atlögu að sigrinum. Þjóðverjar náðu þó að halda íslenska liðinu í skefjum þrátt fyrir baráttuna í okkar mönnum.
Tibor Pleiss miðherji Þjóðverja opnaði leikinn með sveifluskoti en það var svo Jón Arnór Stefánsson sem skoraði fyrstu stig Íslands í lokakeppni EuroBasket með gegnumbroti „up and under“ og jafnaði metin 2-2. Heimamenn slitu sig frá snemma, Schröder með þrist og staðan 7-2 en Haukur Helgi Pálsson svaraði í sömu mynt og klukkaði þar fyrsta þrist Íslands í lokakeppni EuroBasket, 7-5.
Jón Arnór Stefánsson fékk sína aðra villu um miðbik fyrsta leikhluta og brá sér af velli. Þjóðverjar náðu þá að breyta stöðunni í 18-9 með því að hreyfa boltann vel, fá góð skot og voru að hitta vel. Undir lok leikhlutans kom Jón aftur inn og Ísland náði fimm stiga rispu á stuttum tíma og minnkaði muninn í 18-14 en heimamenn áttu lokaorðið í leikhlutanum og leiddu 20-14 að honum loknum.
Villa og karfa að auki, vítið niður að sjálfsögðu og Jón Arnór þar með myndarlega opnun á öðrum leikhluta þar sem hann minnkaði muninn í 20-17. Eftir þessa öflugu byrjun staðnaði sóknarleikur íslenska liðsins umtalsvert. Nánast allan fyrri hálfleik var þriggja stiga prósentan betri en prósentan í teigskotum og það kann ekki góðri lukku að stýra. Dennis Schröder var einnig illur viðureignar og íslensku bakvörðunum gekk illa að halda honum fyrir framan sig sem riðlaði varnarleiknum allnokkuð.
Martin Hermannsson minnkaði muninn í 28-22 með þriggja stiga körfu en þá hrökk Nowitzki-mótorinn í gang. Dirkarinn fór að splæsa í þessi „step-back“ skot sem bestu varnarmenn heims hafa klórað sér í höfðinu yfir og sú varð einnig raunin með íslensku varnarmennina, þeim til bóta hefur fáum ef nokkrum tekist að hemja þetta vopnabúr hjá Nowitzki sem stýrði lokaspretti fyrri hálfleik og Þjóðverjar leiddu 41-26 í leikhléi.
Jón Arnór Stefánsson var með 11 stig í hálfleik og 2 stoðsendingar og Haukur Helgi Pálsson var með 8 stig og 2 fráköst. Skotnýting íslenska liðsins var dræm í námunda við körfuna eða 29,4% og 26,7% í þriggja stiga skotum.

Að hefja leik á troðslu í síðari hállfleik eins og Hörður Axel Vilhjálmsson gerði er vitaskuld fátt annað en ævintýralegt. Hörður setti sterkan tón fyrir íslenska hópinn með krafti sínum inn í síðari hálfleikin en okkar menn urðu fyrir áfalli þegar Haukur Helgi Pálsson fékk sína fjórðu villu fyrir litlar sakir aðrar en þær að vera í námunda við Dirk Nowitzki. Jakob Örn Sigurðarson minnkaði svo muninn í 48-41 með teigskoti en heimamenn gáfu þá í og breyttu stöðunni í 56-41. Þjóðverjar gerðu 11-2 sprett undir lok þriðja leikhluta og leiddu 59-43 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Þeir Schröder og Nowitzki byrjuðu á bekknum í fjórða leikhluta en þegar íslenska liðið fór að naga niður forskotið komu þeir fljótt aftur inn á völlinn. Hlynur Bæringsson skellti niður tveimur sterkum þristum, fyrst 69-59 og svo 69-63 og hér fór kliður um salinn og kalt vatn rann millum skinns og hörunds heimamanna.
Á lokasprettinum þegar rúm mínúta lifði leiks hefði Jón Arnór Stefánsson alveg mátt fá dæmda villu en svo varð ekki og bæði lið settu í lás, íslenska liðið fékk nokkur fín tækifæri til að komast enn nær en Þýskaland rétt hafði það af að loka verkinu 71-65.
Við þessar kyngimögnuðu aðstæður er skiljanlegt að eitthvað gefi sig og okkar menn vitum við að eru allt annað en sáttir með t.d. 54,5% vítanýtingu. Eins voru þeir Nowitzki og Schröder okkur erfiðir en við skulum halda því til haga að íslenska liðið tapaði færri boltum en það þýska en Þjóðverjar höfðu okkur undir í fráköstunum.
Á morgun leikur Ísland gegn Ítalíu kl. 18:00 að staðartíma en nú þegar þetta er ritað er að hefjast stórviðureign Spánar og Serbíu og lokaleikur dagsins er viðureign Ítalíu og Tyrklands.



