spot_img

Fyrir Rombley!

Til allrar lukku fyrir Skagafjörðinn í heild sinni var Dimitrios Agravanis í banni í þriðja leik úrslitanna á Króknum á miðvikudagskvöldið síðastliðið. Til að milda eineltið er rétt að benda á að margt annað jákvætt mátti greina í leik Tindastóls í þeim leik, frábær spilamennska og deildarmeistararnir með 2-1 forystu í einvíginu fyrir leik kvöldsins. Tekst Garðbæingum að knýja fram oddaleik á Króknum með sigri í kvöld, Kúla góð?

Kúlan: ,,Jájá, þetta er næstsíðasta veislan á þessu tímabili. Lögmál meðaltalsins mun vinna með Orra Gunn í kvöld og verður lykilatriði í sigri Stjörnupilta! Lokatölur 94-86“.

Byrjunarlið

Stjarnan: Ægir, Hilmar Smári, Febres, Orri, Rombley

Tindastóll: Basile, Arnar, Giannis, Sadio Doucoure, Drungilas 

Gangur leiksins

Það titraði allt í húsinu og ljóst að andrúmsloftið var eldfimt í Ásgarði. Það virtist fara mun betur í gestina til að byrja með og allt byrjunarliðið ákvað að henda svo sem eins og einum þristi niður á fyrstu mínútunum! Eftir þátttöku Basile í þeim leik stóðu leikar 3-16, rétt 4 mínútur liðnar af leiknum og Stjörnumenn nokkuð slegnir. Stjörnupiltar náðu þá loks áttum en munurinn hélst óbreyttur út leikhlutann, staðan 19-32 eftir einn.

Dimitrios kom inn fyrir gestina í öðrum leikhluta og fékk vægast sagt kaldar móttökur. Sama hitastig var á frammistöðunni, 4 ömurleg skot og slakur varnarleikur virtist ætla að hjálpa heimamönnum inn í leikinn. Fyrir Stjörnuna kom Borgnesingurinn snjalli, Bjarni Guðmann, inn af bekknum og gerði mjög vel. Hann fiskaði 3ju villuna á Drungilas, fékk körfu góða, setti vítið og felldi múrinn fræga í stöðunni 28-37. Varnarleikur heimamanna hertist í leikhlutanum en þrátt fyrir allt ríghéldu gestirnir í forystuna og leiddu 44-56 í hálfleik. Skýrðist það einkum af stórleik Doucoure sem sökkti 19 stigum í fyrri hálfleik og Basile sem var með 18 stig. Ægir leiddi sína menn með 13 stigum.

Shaq Rombley þurfti frá að hverfa í öðrum leikhluta vegna einhverra veikinda og útlitið því nokkuð dökkt fyrir heimamenn. Eins og stundum vill verða þjappaði mótlætið hins vegar Stjörnumönnum saman og það var eins og Stjörnupiltar væru 10 inn á varnarhelmingi sínum! Hvergi var glufu að finna fyrir gestina og einn á einn-leikur virtist vera eini möguleiki þeirri til að skora. Áfram héldu Stólarnir þó smá púða og þegar góðar 3 mínútur lifðu af leikhlutanum leiddu gestirnir enn, 61-70. Þá opnuðust hreinlega flóðgáttirnar fyrir Stjörnuna – Ægir fór mikinn fyrir sína menn og Jase Febres lét meira til sín taka en oft áður og gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn með þristi í 73-73 þegar skammt var eftir af leikhlutanum! Allt kengbilað í húsinu enda jafnt, 73-73 eftir þrjá.

Spennan var langt yfir heilsuverndarmörkum og við slíkar aðstæður er gjarnan ekki mikið skorað. Jase kom þó þristi niður eftir um mínútu leik og kom Stjörnunni yfir í fyrsta sinn í leiknum, 76-75! Basile dró sína menn áfram, setti 5 stig í röð fyrir sína menn og aftur leiddu gestirnir. Stólar héngu á 3-5 stiga forystu næstu 7 mínúturnar, að mestu skorað beggja vegna af vítalínunni enda fóru menn að tínast útaf með 5 villur, fyrst Bjarni og svo Drungilas skömmu síðar. Þegar 2 mínútur voru eftir kom Jase heimamönnum aftur yfir með þristi, 87-85 og allt ætlaði um koll að keyra í húsinu. Giannis fékk sína fimmtu villu fyrir ruðning þegar 1 mínúta var eftir, vafasamur dómur myndi einhver segja, og Jase sótti sóknarfrákast gegn lágvöxnum gestum í næstu sókn og heimamenn 89-86 yfir! Vörnin hélt, eins og oftast í seinni hálfleik, og Hilmar Smári tryggði sigurinn með stórglæsilegu gegnumbroti þegar 15 sekúndur voru eftir á klukkunni. Ekki urðu stigin fleiri og algerlega stórkostlegur endurkomusigur Stjörnunnar staðreynd! Lokatölur 91-86. (Kúlan vill skjóti því inn í að Hlynur klúðraði 2 vítaskotum í blálok leiks…skamm!)

Menn leiksins

Jase Febres steig upp á ögurstundu og lét mikið að sér kveða. Hann setti 24 stig og tók 15 fráköst. Annars var þetta góður liðssigur eins og svo oft í vetur hjá Stjörnunni og varnarframmistaðan í seinni hálfleik var algerlega til fyrirmyndar.

Doucoure og Basile voru langbestir gestanna, Basile með 30 stig og Doucoure með 26. Fyrir utan fyrsta leikhlutann þar sem allir voru að setjann vantaði einfaldlega meira frá mörgum leikmönnum liðsins. 

Kjarninn

Við skulum bara kjarna kjarnann að þessu sinni. Við fáum oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Króknum á miðvikudag. Þvílík veisla!

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -