spot_img
HomeFréttirFunheitur Hairston átti DHL Höllina

Funheitur Hairston átti DHL Höllina

Margafskrifað lið Stjörnunnar minnkaði í kvöld muninn í 2-1 í undanúrslitaeinvíginu gegn KR í Domino´s deild karla. Á þessu hafði enginn trú og síður en svo að Stjarnan myndi vinna 19 stiga sigur í DHL Höllinni. Frammistaða Garðbæinga var ekki síst Junior Hairston að þakka sem gerði 41 stig og tók 16 fráköst fyrir Garðbæinga. Ætli KR-ingar hafi ekki einfaldlega trúað því líka sjálfir eins og flest allir aðrir að þessi þriðji leikur væri bara formsatriði og því einfaldlega ekki klárir í lið sem er að berjast fyrir lífi sínu. Lokatölur 76-95 og stærsta tap KR á leiktíðinni í þokkabót svo Stjörnumenn kvittuðu hressilega fyrir leik tvö!
 
 
Liðin þukluðu hvert á öðru með hinum mestu rólegheitum í upphafi leiks en þegar röndóttir komust í 10-8 kom skvetta frá Garðbæingum. Sjö stig í röð og Hairston var hér beittur en Shouse tók svo við keflinu. Stjarnan komst í 14-22 en þá tók Pavel Ermolinskij til sinna ráða og dró KR nærri, Pavel lokaði fyrsta leikhluta með sterku gegnumbroti og staðan 24-29 fyrir gestina eftir fyrsta leikhluta. Watt tróð nánast eftir pöntunum en á varnarendanum var hann fremur líflaus líkt og aðrir liðsfélagar sínir.
 
Sæmundur Valdimarsson opnaði annan leikhluta með sterku gegnumbroti fyrir Stjörnuna um leið og skotklukkan rann út og áfram leiddu gestirnir, nú 24-31. Martin Hermannsson kom KR þó í forystuna nokkru síðar 37-36 með erfiðri þriggja stiga körfu. Þar skammt á undan hafði miðherjinn Fannar Helgason fallið í gólfið en hann snéri á sér hægri ökklann og var studdur af velli. Fannar kom ekki meira við sögu í leiknum.
 
Nokkuð minna var skorað í öðrum leikhluta, heimamenn í KR búnir að laga vörnina sem fékk á sig 29 stig í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta urðu þau aðeins 13 talsins. Stjarnan leiddi í leikhléi 41-42 þó Helgi Magnússon hafi átt síðasta orðið fyrir KR með gegnumbroti þegar örfáar sekúndur lifðu af fyrri hálfleik.
 
Demond Watt Jr. var með 15 stig og 6 fráköst í liði KR í hálfleik en Junior Hairston var með 15 stig og 12 fráköst. Liðin voru samtals 4-22 í þristum í fyrri hálfleik og því mátti búast við því í þeim síðari að byssurnar myndu taka lítið eitt við sér því 4-22 er ekki til eftirbreytni fyrir 24 fulltíða karlmenn.
 
 
Heimamenn voru fljótir að jafna, 53-53 eftir þrist frá Pavel og báru skotin sem Pavel fékk í kvöld þess vott að Garðbæingum liði betur með að gefa honum skotið en fá hann af stað í átt að körfunni enda Pavel stórhættulegur á þann veginn. Hér tók Hairston leikinn í sínar hendur, stýrði 4-18 áhlaupi Stjörnunnar og steig vart feilspor, ef hann var ekki að keyra framhjá mönnum var hann að smella niður þristum en þeir urðu alls þrír talsins hjá Hairston í kvöld.
 
Til að kóróna áhlaup Stjörnunnar fjaraði þriðji leikhluti út hjá KR með tæknivíti á Watt og skömmu eftir að þeim formlegheitum lauk kom Hairston þristur og staðan 57-73 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. 16-31 leikhluti hjá Stjörnunni og spilamennska heimamanna gaf engin fyrirheit um að þeir ættu afturkvæmt.
 
Það sauð enn á Hairston svo hann opnaði fjórða leikhluta með stolnum bolta og troðslu. Hans besti leikur á tímabilinu, vafalaust. Að leggja KR er örugglega eins og að fella ljón, vissara að ganga úr skugga um að þú hafir fullkomnlega lokið verkinu. Þetta var ekki alveg búið því Helgi Magnússon beit frá sér fyrir hönd KR-inga. Barátta hans smitaðist fljótt inn í hóp deildarmeistaranna sem náðu að minnka muninn í 73-79 en nær komust þeir ekki. Marvin Valdimarsson lauk eiginlega verkinu þegar tvær mínútur lifðu leiks er hann blakaði sóknarfrákasti ofan í. Lokahnykkurinn hafði svo óíþróttamannslega villu og tæknivíti í för með sér sem dæmdar voru á liðsmenn KR. Lokatölur 76-95 eins og áður greinir og staðan 2-1 fyrir KR.
 
Junior Hairston var vitaskuld langbesti maður vallarins með 41 stig og 16 fráköst og Marvin Valdimarsson bætti við 20 stigum. Hjá KR var Demond Watt með 22 stig og 11 fráköst og Helgi Magnússon bætti vði 18 stigum. Þá var Pavel Ermolinskij með 17 stig og 8 fráköst. Liðin mætast aftur í fjórða leiknum í Ásgarði næsta sunnudag þar sem KR getur með sigri komið sér í úrslit en Stjörnusigur þýðir oddaleikur í DHL Höllinni.
 
 
Myndir og umfjöllun/ [email protected]
  
Fréttir
- Auglýsing -