12:09
{mosimage}
(Eva Rós fór á kostum með Keflavík um helgina)
Bikarhelgi yngriflokka fór fram í Toyotahöllinni í Keflavík um helgina og fóru níu úrslitaleikir fram. Fimm á laugardegi og fjórir á sunnudegi. Heimamenn í Keflavík áttu flest lið í keppninni eða fjögur talsins og unnu þau alla sína leiki og því um fullt hús að ræða hjá Keflvíkingum, sannarlega glæsilegt hjá mótshöldurum og þá var umgjörðin eins og best verður á kosið en t.d. var hægt eins og áður að kaupa myndband af öllum leikjunum og þá var einnig fjallað um alla leikina hér á Karfan.is í máli og myndum.
Keflavík var eins og áður segir með 4 bikartitla, Fjölnir vann 2, KR 2 og Njarðvíkingar unnu einn. Það voru því aðeins fjögur félög af átta sem áttu lið í úrslitum sem unnu bikartitla um helgina.
Óhætt er að segja að tveir leikmenn hafi stolið senunni um helgina en það voru þau Eva Rós Guðmundsdóttir frá Keflavík og Haukur Helgi Pálsson úr Fjölni.
Eva Rós Guðmundsdóttir varð bikarmeistari með Keflavík í 9. flokki á sunnudeginum er Keflavík lagði Njarðvík örugglega 75-41. Eva Rós gerði 23 stig, tók 18 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og var fyrir vikið valin besti maður leiksins. Eva Rós var aftur á ferðinni með Keflavík b á sunnudeginum þegar liðið mætti Njarðvík í stúlknaflokki. Aftur var um að ræða öruggan sigur Keflavíkur þar sem Eva Rós gerði 23 stig tók 20 fráköst og var með 5 stolna bolta í 71-51 sigri Keflavíkur. Tvöföld ánægja hjá Evu á sunnudag sem í þessum tveimur leikjum var með samtals 46 stig og tók 38 fráköst ásamt því að gera vel í fleiri tölfræðiþáttum í leikjunum.
{mosimage}
(Haukur Helgi Pálsson hefur þegar vakið athygli stórliða í Evrópu)
Haukur Helgi Pálsson fór mikinn á laugardeginum þegar Fjölnir lagði KR örugglega 105-68 í 11. flokki karla. Haukur gerði 45 stig, tók 12 fráköst, stal 10 boltum, gaf 9 stoðsendingar og varði 6 skot í leiknum. Fyrir þessa mögnuðu frammistöðu fékk Haukur 71 í framlagseinkunn og var vitanlega valinn besti maður leiksins. Haukur var aftur á ferðinni á sunnudeginum og þá með drengjaflokki Fjölnis sem lagði Skallagrím örugglega 99-58. Í þeim leik var Haukur með 19 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar en félagi hans Ægir Þór Steinarsson var valinn besti maður leiksins.
Hér að neðan sjást úrslit leikjanna sem og fjöldi titla félaga um helgina:
9. flokkur karla
KR 65-50 Þór Þorlákshöfn
10. flokkur kvenna
Keflavík A 61-37 UMFG
11. flokkur karla
Fjölnir 105-68 KR
Unglingaflokkur kvenna
KR 61-57 Haukar
Unglingaflokkur karla
Keflavík 102-87 Valur
9. flokkur kvenna
Keflavík 75-41 UMFN
10. flokkur karla
UMFN 77-53 KR
Stúlknaflokkur
Keflavík b 71-51 UMFN
Drengjaflokkur
Fjölnir 99-58 Skallagrímur
Fjöldi titla:
Keflavík: 4
KR: 2
Fjölnir: 2
UMFN: 1



