spot_img
HomeFréttirFullnaðarsigur ungmenna í Grafarvogi

Fullnaðarsigur ungmenna í Grafarvogi

 
Karfan er komin upp! Af því tilefni hafa ungmennin sem efndu til mótmæla á dögunum þegar karfan þeirra var tekin af leikvelli við göturnar Garðhús og Veghús í Grafarvogi ákveðið að slá upp veislu við leikvöllinn í kvöld kl. 19:30.
Forsaga málsins er sú að íbúi í hverfinu kvartaði undan hávaða og skömmu síðar var karfan fjarlægð. Ungmenni mótmæltu þessum aðgerðum borgaryfirvalda með því að halda ,,alþjóðlegan drippldag“ á leikvellinum og fengu sínu framgengt eins og sést á meðfylgjandi mynd. Karfan er komin á sinn stað, 305 sm. að hæð, lögleg hæð.
 
Ægir Þór Steinarsson, einn forsprakka mótmælanna, og einn af bestu leikmönnum þjóðarinnar fór fyrir mótmælunum og ber sig vel um þessar mundir enda karfan komin upp, Ægir nýorðinn tvítugur og á leið í nám til Bandaríkjanna þar sem hann mun spila með Newburry skólanum ásamt félaga sínum Tómasi Heiðari Tómassyni.
 
Fyrstu körfuboltatengdu mótmæli Íslandssögunnar báru því árangur, fóru friðsamlega fram og verði mönnum af því reyni þeir aftur að fjarlægja körfuna góðu.
 
Mynd/ Karl West Karlsson: Líkast til er þessi karfa orðin sú frægasta á Íslandi.
 
Fréttir
- Auglýsing -