Síðasti leikur dagins á þessari úrslitahelgi yngri flokka í Stykkishólmi var á milli Tindastóls og FSu í unglingaflokki karla. Tindastólsmenn voru duglegir varnarlega og komust í 10-4 en með þrist frá Þórarni komust FSu nær 10-7. Tindastól með þá Ingva Rafn og Pétur Rúnar voru miklu harðari í aðgerðum sínum og voru skrefunum á undan 26-16. Þess má geta að þeir félagar eru einmitt einnig í byrjunarliði Tindastóls í leik gegn KR á morgun í úrslitakeppni Dominosdeildarinnar og því í eldlínunni á mörgum vígstöðum. FSu komu sterkir til baka og minnkuðu muninn áður en fyrsti hluti var úti og Tindastóll leiddi naumt 26-23.
FSu komust yfir 32-33 en glopruðu frá sér boltanum trekk í trekk eftir það og Skagfirðingar nýttu sér tækifærin vel 41-34. Stórskot fuku í netið en Hannes Ingi rak smiðshöggið í fyrri hálfleikin og Tindastóll leiddi 46-36.
FSu komu sér inn í leikinn með seiglu í þriðja hluta og voru einu stigi undir 56-55 eftir hann. Tindastólsmenn máttu fara að halda rétt á spöðunum til að halda velli. Mikið og hátt spennustig hljóp í leik liðanna sem fóru oft óðslega í aðgerðir sínar en jafnt var á með þeim 62-62 um miðbik fjórða fjórðungs. Tindastólsmenn voru áræðnari undir lokin og kláruðu sitt og uppskáru naumann 74-71 sigur og eru Íslandsmeistarar unglingaflokks karla. Þar með varð tímabilið fullkomið hjá Tindastól sem vann alla leiki sína á Íslandsmótinu!
Viðar Ágústsson fékk viðurkenningu fyrir mann leiksins með 13 stig, 17 fráköst og helling af framlagsstigum. Stigahæstir hjá Tindastól voru Ingvi Rafn með 20 stig og Pétur Rúnar með 17 stig. Í liði FSu var Erlendur Ágúst með 21 stig en Fraser Malcom og Maciej Klimaszewski voru með 10 stig hvor.
Mynd/ Sumarliði Ásgeirsson
Umfjöllun/ Símon B Hjaltalín



