spot_img
HomeFréttirFSu tryggði sæti sitt í 1. deild

FSu tryggði sæti sitt í 1. deild

Leikur FSu og Ármanns í Iðu sl. föstudagskvöld fór altént vel, frá sjónarhóli okkar heimamanna. Þannig tryggði FSu loks stöðu sína í 1. deildinni með 97:76 sigri, og ekki seinna vænna þegar aðeins ein umferð er eftir. Þá er bara spurningin hvort það er ásættanlegt og í samræmi við markmiðin í upphafi? Ármenningar eru hinsvegar fallnir í 2. deild fyrir nokkru. Er þeim hér með óskað velfarnaðar þar og skjótrar endurkomu.
?Heimaliðið byrjaði heldur betur, en gestirnir lærðu fljótt á svæðisvörnina sem beitt var þeim til höfuðs. Það var raunar algjör óskastaða fyrir Ármenninga að spila á móti þessari vörn, sem þó var spiluð allan fyrsta leikhlutann. Staðan var 16 – 20 að honum loknum. Um leið og skipt var í maður á mann vörn í öðrum leikhluta, breyttist allt til batnaðar. Með betri vörn fór sóknarleikurinn að ganga upp. Kveikt var í netinu, og áhorfendur fengu á tilfinninguna að Ármenningar yrðu bakaðir við eldinn, sem af því hlaust. Er skemmst frá því að segja að annan leikhlutann vann FSu. 30-8!
 
?En sveiflukennt hélt það áfram að vera. Þriðja leikhluta vann Ármann 31-22. Á þessum kafla skorti hjá heimaliðinu nokkuð á þá liðskjarnahugsun og stöðugleika, sem einkenna flest sigursæl lið. Hefur þessi hlið raunar komið óþarflega oft upp á teningnum í vetur og líklegt að fleiri leikir hefðu unnist ef tekist hefði að treysta slíkar stoðir innan liðsins og skýra hlutverk betur. Mannskapurinn er nefnilega góður, en þarf að vera betur meðvitaður um það sjálfur, og finna hjá sér traust til að blómstra og láta til sín taka. Þegar líða tók á fjórða leikhluta tók FSu liðið á sig rögg og sigldi sigurfleyinu farsællega í höfn.
 
?Margt gott er hægt að segja um þennan leik FSu liðsins. Allir leikmenn stóðu fyrir sínu, og oft var skemmtilegt að sjá hversu vel tíminn var nýttur í sókninni, kerfin látin rúlla og boltinn ganga og sóknum lokið með fríum langskotum eða sniðskotum undir körfunni. Vörnin var hins vegar mistæk, og skýrist það kannski einfaldlega af því að í liðinu eru færri góðir varnarmenn en sóknarmenn. Þannig virðist erfitt að stilla upp sannfærandi vörn, ef liðið er látið fljóta mjög mikið. Þar er verðugt verk að vinna fyrir næsta tímabil.
 
?Crawford átti nú sinn besta leik með 18 stig og 12 fráköst, Sæmundur var magnaður, einkum í sókninni en varði auk þess amk. tvö skot á ævintýralegan hátt, með 18 stig, 6 fráköst, frábæra skotnýtingu og hæsta framlagið, 27 stig. Þorkell var kjölfestan í vörninni þegar hans naut við og klikkaði vart á skoti, með 12 stig og 4 fráköst, Orri, 14 stig, og Bjarni, 9 stig og 5 stoðsendingar, stóðu vel fyrir sínu að vanda og gerðu margt laglega, Siggi Haff. skoraði 5 stig og nýtti hvert skot, Svavar Stefánsson, U-!8 landsliðsmaður skoraði 6 stig og tók 6 fráköst, Birkir Víðisson skoraði 10 stig, Eggert Guðlaugsson 3 og Gísli Gautason 2.
 
Víða má sjá háar skotnýtingartölur, sérstaka athygli vekur að 5 leikmenn FSu liðsins voru með 100% vítanýtingu. Það er mikil framför frá mörgum fyrri leikjum, og getur ráðið úrslitum í jafnari leikjum en þessi var. Á tölfræðiskýrslu leiksins má raunar lesa töluna 100% alls ellefu sinnum hjá FSu liðinu! Ármenningar nýttu skot sín mun verr, vítin t.d. aðeins 56%.
 
Hjá gestunum var Hsu stigahæstur með 18 stig, Jón Rúnar Arnarson skoraði 17, þar af 4/7 eða 57% í þristum, þeir Illugi Auðunsson og Árni Þór Jónsson 9 hvor, Vilhjálmur Theodór Jónsson 8, Eysteinn Freyr Júlíusson skoraði 7 og tók 10 fráköst, Helgi Hrafn Þorláksson skoraði 4 og stal 4 boltum, Eiríkur Viðar Erlendsson 2 stig og Sigurbjörn Jónsson 2 stig og 6 fráköst.
 
Mynd/ Úr safni: Þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson á ferðinni með FSu fyrr á leiktíðinni.
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson  
Fréttir
- Auglýsing -