Fyrstu umferð í 1. deild karla lauk í dag með viðureign nýliða Leiknis og FSu. Um stórsigur Selfyssinga var að ræða þar sem Leiknismenn áttu ekki bensín í lokasprettinn en þeir náðu þó að stríða FSu um hríð. Lokatölur reyndust 55-91 FSu í vil þar sem Richard Field, fyrrum leikmaður Þórs Þorlákshafnar, fór á kostum í liði FSu og gerði 44 stig og tók 17 fráköst. Hjá Leikni var Darrell Lewis atkvæðamestur með 14 stig og 10 fráköst.
Aðspurður hvort langur vetur væri framundan hjá Leikni svaraði þjálfari þeirra Ari Gunnarsson þessu: ,,Hann er jafn stuttur og hinir, við erum ekki á neinu öðru tímatali,“ sagði Ari léttur í bragði þrátt fyrir helst til of stóran ósigur hans manna sem veittu FSu verðuga mótspyrnu fyrstu 30 mínútur leiksins. ,,Við vorum bara bensínlausir, við áttum góðan fyrri hálfleik og höfðum trú á því sem við vorum að gera. Í raun var þessi leikur ekki neitt sem við bjuggumst ekki við en munurinn er sá að FSu er með dýrasta kanann í 1. deild. Við höldum bara áfram og gerum það besta úr hlutunum,“ sagði Ari en Richard Field eins og áður greinir, fór á kostum í leiknum með 44 stig og 17 fráköst og virtis skapa helsta muninn á liðunum tveimur.
Valur Orri Valsson og Richard Field sáu til þess að FSu var skrefinu á undan og leiddi 32-47 í hálfleik. Darrell Lewis var kominn með 9 stig í liði Leiknismanna en Field 20 stig og 9 fráköst hjá FSu.
Leiknismenn sýndu engan nýliðabrag á sér í þriðja leikhluta og unnu leikhlutann 15-10 með sterkum varnarleik sem bersýnilega fór í taugarnar á Selfyssingum sem létu flest allt fara í taugarnar á sér á þessum kafla. FSu leiddi þó áfram og staðan 47-57 FSu í vil eftir þrist frá Val Orra fyrir FSu þegar 8 sekúndur voru eftir af leikhlutanum.
Valur Ingimundarson prédikaði það yfir hausamótum sinna manna að nú skyldi hver og einn fara að leika samkvæmt hans boðunum og hvæsti vel á sína menn. Það gaf vel enda voru FSu algerlega einráðir í fjórða leikhluta. Að sama skapi virtist tankurinn tómur hjá Leikni og FSu sigldi inn í þægilegan 55-91 sigur.
,,Ég er sáttur, þetta var ströggl framan af en húsið er erfitt og þetta var fyrsti leikur og við náðum svona að hanga í því sem við lögðum upp með fyrir leikinn,“ sagði Valur Ingimundarson þjálfari FSu í samtali við Karfan.is eftir leik. ,,Ég er sáttur með ungu strákana og vona að þessi leikur hafi tekið stressið af mörgum þeirra. Við leikum næst gegn Blikum heima og hefðum við t.d. mætt þeim í dag þá hefðu Blikar jarðað okkur. Við erum annars með ungt og skemmtilegt lið svo við erum bara kokhraustir, getum unnið alla og tapað fyrir öllum.“
Stigaskor:
Leiknir R.: Darrell Lewis 14/10 fráköst, Einar Hansberg Árnason 10/4 fráköst, Hallgrímur Tómasson 9/7 fráköst, Einar Þór Einarsson 6, Helgi Davíð Ingason 6, Daði Steinn Sigurðsson 4/4 fráköst, Brynjar Smári Rúnarsson 3, Snorri Fannar Guðlaugsson 3, Sigurður Gíslason 0, Eiríkur Örn Guðmundsson 0, Þórður Björn Ágústsson 0, Kristinn Magnússon 0.
FSu: Richard Field 44/17 fráköst, Valur Orri Valsson 21/4 fráköst/8 stoðsendingar, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 15, Svavar Stefánsson 5, Sæmundur Valdimarsson 3/5 fráköst, Arnþór Tryggvason 2, Orri Jónsson 1/4 fráköst, Jóhannes Páll Friðriksson 0/5 fráköst, Sigurbjörn Jónsson 0, Gísli Gautason 0, Daníel Kolbeinsson 0, Garðar Hannesson 0.
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Steinar Orri Sigurðsson