spot_img
HomeFréttirFSu með góðan útisigur

FSu með góðan útisigur

Það var mikið fjör á Egilsstöðum í gærkvöld þegar Höttur tók á móti liði FSu. Leikurinn var æsispennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunni.
 
 
Liðin skiptust á um forystuna í fyrsta leikhluta og ljóst var að bæði lið hafa á að skipa ágætlega breiðum leikmannahópi því enginn einn skaraði fram í byrjun en stigaskorið dreifðist á liðsmenn. FSu var þó heldur með frumkvæðið og leiddi eftir leikhlutann 18-22.
 
Svipað var uppi á tengingnum í öðrum leikhluta og skiptust liðin nokkuð á að sýna fín tilþrif. Staðan í hálfleik var 43-44.
 
Hattarmenn komu betur stemmdir til síðari hálfleiks og tóku frumkvæðið af gestunum. Að loknum þriðja leikhluta leiddi liðið 62-58 og í byrjun fjórða leikhluta leit allt út fyrir að Höttur myndi klára leikinn.
 
En leikmenn FSu sýndu úr hverju þeir eru gerðir með því að breyta stöðunni úr 70-58 þegar 8:30 voru eftir á klukkunni í 85-85 þegar 22 sekúndur voru eftir. Í lokasókninni lét síðan Daði Berg Grétarsson klukkuna ganga niður og kom síðan boltanum á Ara Gylfason sem kom boltanum í körfuna og fékk villu að auki þegar 1 sekúnda stóð eftir á klukkunni.
 
Vítaskotið fór ekki niður en enginn tími var fyrir heimamenn að gera neitt og FSu fagnaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu, en Höttur hefur nú tapað báðum sínum leikjum til þessa.
 
Stigahæstir í gær voru þeir Frisco Sandidge hjá Hetti með 22 stig og 11 fráköst og Collin Pryor hjá Fsu með 22 stig og 20 fráköst. Eysteinn Bjarni Ævarsson setti 19 fyrir heimamenn og Ari Gylfason 21 stig fyrir gestina.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -