Það er ekkert leyndarmál að FSu geta skotið boltanum fyrir utan. Það vita öll lið og öruggt að Valur hefur búið sig vel undir oddaleik liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla, með það að leiðarljósi. Það hins vegar getur enginn þjálfari búið lið sitt undir þá stórskotahríð og Valur sat undir í Iðu í gærkvöldi.
Valur sá í raun aldrei til sólar í þessum leik. Skothríðin gekk sleitulaust frá fyrstu mínútu. Fyrstu fimm mínútur leiksins tókst Valsliðinu að hanga í heimamönnum en þegar um mínúta var eftir af 1. leikhluta skellti FSu í lás í vörninni og stappaði bensínið í botn í sókninni. 7-0 sprettur Selfyssinga skildi gestina eftir í rykinu og 15 stigum undir, 31-16 þegar flautan gall í lok 1. hluta.
Tilraunir Vals til að stoppa í götin í vörn sinni urðu að engu þegar skothríðin hélt áfram í 2. hluta. Boltinn gekk manna á milli þar til gott, opið skota fékkst og þá logaði græna ljósið. Það voru hreinlega allir að skjóta og af góðri ástæðu. FSu voru með 18 stoðsendingar í fyrri hálfleik svo ekki var það einstaklingsframtakið sem hrundi þessu af stað, heldur fljótandi og hröð hreyfing á boltanum.
FSu skoruðu hreinlega úr öllum hornum, 5/12 í þristum í 1. hluta, 5/9 í þristum í 2. hluta þar sem þeir enduðu með að skora 34 stig gegn eðlilegum 22 frá Val.
Hálfleikstölur voru 65-38 og ljóst að á brattan var að sækja fyrir gestina.
Skilvirkni FSu í fyrri hálfleik var á allt öðru plani en venja er í 1. deild. 1,56 stig per sókn og 66,2% nýtingu sókna. Tölurnar frá Val voru nokkuð góðar — bara ekki svona fáránlega góðar.
Völsurum tókst þó að hægja umtalsvert á sóknarleik FSu í 3. hluta þar sem nýting þeirra féll niður í 33,3% utan af velli. Þeim tókst hins vegar ekki að láta kné fylgja kviði og skutu sjálfir 4/16 í sama fjórðung og skoruðu aðeins 16 stig á móti 18 frá heimamönnum.
Í upphafi 4. hluta var ljóst að þessi leik var löngu lokið og formsatriði að klára mínúturnar. Illugi Auðunsson, besti maður Vals í leiknum tognaði á ökkla í lok 3. hluta og var því ekki meira með í leiknum.
Heimamenn hættu þó ekki að skjóta fyrir utan þrátt fyrir það. Þeir reyndu aðeins 3 skottilraunir innan þriggja stiga línunnar en allar hinar 14 komu neðan úr bæ.
Lokatölur leiksins voru 108-75 og gersigraði Valsarar sendir í frí á meðan sjóðheitir Selfyssingar skutu sig í sannkölluð Suðurlands-úrslit á móti Hamri .
Ari Gylfason var algerlega meðvitundarlaus í skotum sínum í gærkvöldi. Skaut 9/18 í þristum og eflaust margir sem myndu sætta sig við 52% heildarskotnýtingu í einum leik — hvað þá ef 86% skota þinna koma 7 metrum frá körfunni. Ari lét ekki þar við sitja heldur reif niður 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Colin Pryor sat rólegur í aftursætinu í þessum leik, setti 15 stig og tók 11 fráköst.
Það sat enginn einn um hituna hjá Val, heldur skiptist stigaskor þeirra mjög jafnt. Nathen Garth setti 17 stig og gaf 6 stoðsendingar, Illugi Auðunsson bætti við 15 stigum og 10 fráköstum og Kormákur Arthursson setti 13 stig á 21 mínútu.
Úrslitin hefjast 9 apríl nk. í Hveragerði en færast svo yfir til Selfoss þann 12. Þurfi svo að skera úr um hvort þessara liða fari upp í úrvalsdeild með oddaleik mun hann fara fram 15 apríl í Hveragerði.
Það er veisla á öllum vígstöðvum í körfuboltanum á Íslandi!
Tölfræði leiks.
Myndasafn HT.



