09:00
{mosimage}
(Árni Ragnarsson)
Nýliðum FSu er spáð falli í 1. deild að nýju en Karfan.is efast stórlega um að Brynjar Karl Sigurðsson sætti sig við það hlutskipti. FSu er að leika í fyrsta sinn í úrvalsdeild en Brynjar er á sínu fjórða ári á Selfossi síðan hann stofnaði þar Körfuknattleiksdeild FSu. Þrír ungir og erlendir námsmenn verða í liði Brynjars í vetur og þá er liðið eitt af fáum í deildinni sem tefla mun fram Bandaríkjamanni. Hversu sterkur hann mun reynast FSu gæti allt eins riðið baggamuninn þegar kemur að fallumræðunni.
Vésteinn Sveinsson var einn sterkasti leikmaður FSu á síðustu leiktíð ásamt Árna Ragnarssyni og verður mikið horft til þeirra og Bandaríkjamannsins Tyler Dunaway í vetur. Sævar Sigurmundsson átti einnig sterka innkomu hjá FSu á síðustu leiktíð svo FSu má vel vera sýnd veiði en fjarri því gefin.
Áhorfendur hafa jafnan fjölmennt á heimaleiki FSu og er von á því að svo verði áfram. Góður stuðningur gæti fleytt nýliðum FSu langt í vetur sem og skemmtilegur baráttuandi liðsins en Brynjar Karl þjálfari liðsins hefur verið þekktur fyrir fátt annað en baráttu.
Það hefur reynst mörgum liðum erfitt að fóta sig í úrvalsdeild en önnur hafa stigið vel upp og orðið spútniklið deildanna á sínu fyrsta ári og þá kannski vert að muna eftir Fjölnismönnum þegar Benedikt Guðmundsson fór með þá upp í úrvalsdeild þegar hann var á sínu öðru ári í Grafarvogi.
Stóra spurningin í kringum FSu er því sú hvernig liðinu takist að aðlagast nýrri og sterkari deild og hversu vel þeim takist að verja heimavöllinn sinn.
Riststjórn Karfan.is
{mosimage}
(Vésteinn Sveinsson)