Bakvörðurinn Friðrik Hreinsson var fjarri góðu gamni síðasta sunnudag þegar Tindastóll sló Keflavík út í Poweradebikarkeppni karla 78-95. Friðrik hefur verið að glíma við ökklameiðsli undanfarið en vonast til að vera með á fimmtudag í Iceland Express deildinni þegar Stólarnir mæta í Toyota-höllina á nýjan leik.
,,Ég hef verið að glíma við ökklameiðsli síðan í leiknum gegn Fjölni hér heima á sunnudaginn fyrir viku. Lenti í samstuði við leikmann Fjölnis. Ekkert alvarlegt en svona ökklameiðsli geta verið leiðinleg og maður verður að gefa þessu tíma til að jafna sig. Ég hafði ekki nógu mikla þolinmæði í það og fór of snemma af stað sem bætti ekki úr skák. Ég hef ekkert getað æft undanfarna daga en er í góðri meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara sem hjálpar mjög mikið. Er að gera mér vonir um að geta verið með á fimmtudag,” sagði Friðrik við Karfan.is en hann er einn af burðarásum Tindastóls og hefur í deildinni þessa leiktíðina gert 12,7 stig og gefið 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.




