,,Við spiluðum frábæra vörn og við vinnum út frá henni,“ sagði Friðrik Erlendur Stefánsson í samtali við Karfan.is eftir oddaviðureign Stjörnunnar og Njarðvíkur í kvöld. Friðrik gerði 20 stig í liði Njarðvíkur og tók 9 fráköst.
,,Þetta var hörku sería og það má ekkert taka frá Stjörnunni sem spiluðu mjög vel í seríunni en við vorum betri,“ sagði Friðrik en Njarðvíkingar voru mest í svæðisvörn, er það varnarafbrigði sem miðherjinn kann vel við?
,,Já já, ég kann vel við þetta en hef bara yfir höfuð gaman af því að spila vörn. Það er ekkert leyndarmál. Annars er þetta nú bara þannig að ef þjálfarinn segir manni að spila svæðisvörn þá bara gerir maður það og gerir sitt besta í því,“ sagði Friðrik en hvernig líst honum á framhaldið, að mæta Keflavík í undanúrslitum?
,,Þetta er alltaf frábært og við eigum harma að hefna gegn Keflavík. Þetta verða hörkuleikir, við mætum klárir og Keflvíkingar mæta klárir og vonandi verða húsin bara full,“ sagði Friðrik en einvígi Keflavíkur og Njarðvíkur hefst mánudaginn 5. apríl næstkomandi í Toyota-höllinni þar sem Keflavík á heimaleikjaréttinn.



