spot_img
HomeFréttirFriðrik Ragnarsson: Njótum góðs af því að hafa mætt Snæfellingum

Friðrik Ragnarsson: Njótum góðs af því að hafa mætt Snæfellingum

12:30
{mosimage}

(Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur)

Grindvíkingar mæta í DHL-Höllina í dag þegar fyrsta viðureign þeirra gegn KR um Íslandsmeistaratitilinn fer fram. Karfan.is náði tali af Friðriki Ragnarssyni þjálfara Grindavíkur en honum fannst það ekki fyrirsjáanlegt að KR og Grindavík myndu leika til úrslita.

Var það ekki næstum því fyrirséð að KR og Grindavík myndu berjast um Íslandsmeistaratitilinn í ár?
,,Nei, mér fannst það nú ekki en þetta eru reyndar búin að vera tvö bestu liðin í vetur. Það getur allt gerst í úrslitakeppninni! Við hefðum t.d. getað farið í oddaleik við Snæfell og KR voru heppnir að sleppa við fjórða leikinn í Keflavík en KR og Grindavík eru samt tvö bestu liðin þennan veturinn,“ sagði Friðrik en hvernig metur hann stöðuna á fyrirliðanum sínum Páli Axeli Vilbergssyni sem hefur verið að glíma við meiðsli?

,,Við munum koma til með að nota Pál Axel en hann er ekki 100% eins og menn sáu á móti Snæfell. Við munum reyna að nota hann og svo sjáum við hvað verður,“ sagði Friðrik sem telur eðlilegt að fólk segi KR sigurstranglegra liðið.

,,Þeir eru með heimavöllinn og bara búnir að tapa einum leik í deildinni í vetur og það er djúpt á bekknum þeirra. Það er eðlilegt að þeim sé spáð sigri enda hlýtur pressan á KR að vera gríðarleg og mikil vonbrigði í Vesturbænum ef þeir koma ekki með titil út úr þessu ári með allan þennan mannskap,“ sagði Friðrik sem á von á skemmtilegu einvígi.

,,Í þessu einvígi eru margir leikmenn sem geta skapað sér ýmislegt upp úr engu svo ég býst við því að þetta verði bara gaman,“ sagði Friðrik og viðurkenndi að Grindvíkingar myndu vissulega leggja mikla áherslu á þá Jón Arnór Stefánsson og Jakob Örn Sigurðarson.

,,Jakob hefur kannski fallið aðeins í skuggann af umræðunni um Jón Arnór en þeir báðir ásamt Jason Dourisseau eru lykilleikmenn og við leggjum áherslu á það að hægja á þeim en þeir verða aldrei stoppaði gersamlega. Jón gerir sín 20-25 stig í leik en við þurfum að fá hann og fleiri í KR til að gera þessi stig í sem flestum tilraunum. Við röðumst ágætlega upp á móti KR og eigum fína varnarmenn á þessa kalla. Liðin raðast vel upp gegn hverju öðru svo þetta gæti orðið forvitnilegt,“ sagði Friðrik en við hverju býst hann úr herbúðum þeirra Vesturbæinga?

,,Stífri maður á mann vörn þar sem þeir skipta á öllum skrínum. Í raun búum við okkur undir allt frá þeim en ég efast um að Benedikt innleiði eitthvað alveg nýtt hjá þeim. Það gæti litið kjánalega út ef það gengur ekki upp,“ sagði Friðrik sem segir sína menn klára í slaginn.

,,Þetta verður hörku viðureign og ég tel okkur njóta góðs af því að hafa mætt Snæfell í undanúrslitum. Við erum fullir bjartsýni og erum með hörkulið og förum í þetta einvígi til að vinna,“ sagði Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga sem verður í eldlínunni kl. 16:00 í Vesturbænum í dag.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -