8:20
{mosimage}
Í samtali við Karfan.is eftir leik Snæfells og Grindavíkur í 4 viðureign liðanna þar sem Snæfell vann með ótrúlegri endurkomu 116-114 eftir framlengingu, sagðist Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur ekki vera viss um hvernig þeir fóru að því að hleypa þessu svona upp.
“Ég á eftir á eftir að skoða þetta í rólegheitum, við fórum að gera allt vitlaust sem hægt var að gera í vörninni. Ekki nóg með að við leyfðum þeim að skora heldur voru þetta þriggja stiga körfur í hvert skipti. Við spiluðum mjög vel stærsta hluta leiksins en þú verður að spila allann leikinn til að klára þetta”
Áttirðu von á meira frá þínu liði í vetur?
“Við ætluðum okkur náttúrlega meiri hluti. Niðurstaðan í þessari seríu segir ekkert hvort Snæfell sé betra en Grindavík. Við vorum með unninn leik í fyrsta leiknum og gáfum þeim hann fyrir eigin klaufaskap og nú aftur hér í kvöld. Við gáfum leikinn, kláruðum illa og fyrir vikið verða þeir kannski að teljast betra liðið þó munurinn sé afskaplega lítill. Við erum auðvitað sárir og svekktir því við ætluðum okkur að sjálfsögðu alla leið og hefðum verið alveg nógu sterkir í það.”
Hvað var lagt upp með í síðustu sókninni, 2 eða 3stig?
“Við ætluðum í þriggja stiga, láta Páll Axel fara í það en það opnaðist ekki fyrir hann og þannig var það.”
{mosimage}
Hlynur lék á alls oddi og var þreyttur eftir þessa seríu en kampakátur með niðurstöðuna og fannst þessi leikur alveg hreint fyrir allann peninginn.
Einn svakalegasti leikur tímabilsins?
“Það er hægt að fara lengra til baka með svona leiki en þetta tímabil og minnir svolítið á Njarðvíkurleikina í undanúrslitum 2004 eða 2005. Það var svipað og ofboðslega gaman að vinna svona, alveg hreint frábært”
Hvað var lagt upp með í lokin til að ná slíkri endurkomu?
“Ekki koðna niður, ekki koxa á pressunni og fara allir að gráta, það þýðir ekkert. Ákveða að gera þetta eins og menn og að láta vaða í svona stöðu. Það er ekki víst að það gangi allt upp að skot fari niður en við urðum að láta vaða og gera eitthvað til að taka sénsa og sjá hvað gerist.”
Óska mótherjar í úrslitum Keflavík eða ÍR?
“Það sem kannski hentar betur eru ÍR vegna heimaleikjaréttar en líkega fáum við Keflavík. Ég veit ekki en það eru allir að afskrifa ÍR aftur og aftur og ætla ég ekki að gera það. Mér finnst þeir hafa verið töffarar og eiga alveg skilið að vera komnir þar sem þeir eru og jafnvel lengra þó svo Keflavík teljist líklegri í þessari stöðu. Ég bara veit ekki hvern ég vil fá skiptir engu”
Hefði verið miklu erfiðara að fara til Grindavíkur í oddaleik?
“Já það fór einhver umræða í gang eftir að hafa tapað einum leik við þriðja besta lið landsins á útivelli. Það er bara hluti af úrslitakeppninni að tapa leikjum og gleyma þeim bara. Það er líka ákveðið þroskaferli hjá liðum að taka á sig skell og koma til baka og spila 2 dögum seinna og gera það sæmilega. Í svona seríu geturðu ekki treyst á að vinna tvo leiki á útivelli eins og á móti liðum eins og KR í fyrra og Grindavík núna. Það verður bara einn að duga og þegar þú ert ekki með heimavöllinn.”
Sagði Hlynur E. Bæringsson sem hvílir sig fyrir lokaátökin og verður spennandi að sjá hverjir mótherjar Snæfells verða, Keflavík eða ÍR og hvernig lokaeinvígði verður í þessari mögnuðu úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar í körfubolta.
Símon B. Hjaltalín
Myndir: [email protected]



