spot_img
HomeFréttirFriðrik: Hundfúlt að þurfa hætta

Friðrik: Hundfúlt að þurfa hætta

17:15

{mosimage}
(Friðrik í bikarúrslitunum í fyrra)

Friðrik Hreinsson gekk í dag til liðs við Ármann/Þrótt frá Hamar í Hveragerði. Friðrik sagði í samtali við Karfan.is að hann væri spenntur að fara spila með nýju félögum sínum en vegna persónulegra aðstæðna hafði hann ekki getað haldið áfram í Hveragerði.

Friðrik hefur verið undanfarið í Lögregluskólanum og er nú að fara hefja vaktavinnu og hann sagði að það færi of mikill tími í að keyra austur á æfingar. En hann býr í Reykjavík. ,,Ég þurfti að skipta um félag sökum anna. Ég hef ekki tíma í að vera með Hamar í Iceland Express-deildinni – það er bara of mikið að gera. Ég er búinn að vera í námi í Lögregluskólanum og er fara byrja á vöktum núna,” sagði Friðrik.

Aðspurður hvort að Ármann/Þróttur væri ekki með besta liðið í 1. deild – allavega á pappír eftir tilkomu hans og Maurice Ingram sagði Friðrik að liðið hefði reynsluna. ,,Reynslulega séð erum við með eitt öflugasta liðið. Þarna eru leikmenn sem hafa spilað í úrvalsdeildinni í nokkur ár. En það er aldrei að vita hvað gerist – liðið gæti farið upp ef menn hafa gaman af þessu.”

Ákvörðun Friðriks að hætta með Hamar var ekki létt en þetta var samt ákvörðun sem hann varð að taka. ,,Ég var alltaf að keyra austur á æfingar og það fór mikill tími í það. En það er hundfúlt að þurfa hætta. Það er ekkert flóknara en það,” sagði Friðrik en hann var ekki tilbúinn að hætta alveg í körfunni og fór því í 1. deildina. ,,Það er alltaf gaman í körfu og því var ég ekki tilbúinn að hætta þessu alveg. Ég varð bara að forgangsraða rétt,” sagði Friðik sem tekur nám sitt afar alvarlega.

Hann sagði að engin önnur félög af höfuðborgarsvæðinu hefðu verið að eltast við hann enda var hann ekkert að flagga því að hann væri að fara skipta um félag. Gunnlaugur Elsuson, þjálfari liðsins, er vinur hans ásamt því að hann þekkir nokkra stráka í liðinu og það hafði áhrif á ákvörðun hans. En verður ekki erfitt að taka við skipunum frá vini þínum Gunnlaugi sem er þjálfari? ,,Ef einhver þekkir Gulla þá er það ég,” sagði Friðrik í léttum tón. Ég get alveg tekið við skipunum frá honum. Svo getur hann kannski hlustað líka eitthvað á mig. Ég hef töluverða reynslu.”

Að fara milli deilda – úr úrvalsdeildinni í þá fyrstu. Er það ekki skref aftur á bak körfuboltalega séð? ,,Já, óneitanlega er það stórt skref aftur á bak. En það er aldrei að vita hvað hvernig framtíðin verður. Það er aldrei að vita nema maður fari aftur í úrvalsdeildina. Það er kannski hægt að líta á þetta sem smá pásu.”

Friðrik leikur sinn fyrsta leik með Ármanni í kvöld.

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -