spot_img
HomeFréttirFréttir af annarri umferð 8. flokks kvenna

Fréttir af annarri umferð 8. flokks kvenna

9:05

{mosimage}

Á myndinni sést Harpa Lind (númer 8) leikstjórnandi KR. Það mæddi mikið á henni í mótinu.

 

Helgina 3. og 4. nóvember var leikið í þremur riðlum hjá stelpum fæddum árið 1994. Þetta er ágætur og athyglisverður árgangur á íslenskan mælikvarða.

 

Það sem gerir þennan flokk m.a. spennandi er: Stór hluti leikmanna bestu liðanna er búinn að æfa körfu lengi og undir handleiðslu góðra þjálfara, í mörgum liðum eru margir leikmenn með mikla boltatækni og mikinn leikskilning, í nokkrum liðum eru efnilegir hávaxnir leikmenn og þó nokkur fjöldi leikmanna er með körfuknattleiksgen í sér. Síðasta atriðið í framannefndri upptalningu er nokkuð mikilvægt því foreldrar margra leikmanna í þessum árgangi eru að þjálfa viðkomandi lið eða starfa í kringum þau. Þessa helgi léku 15 lið frá 13 félögum. Þess ber að geta að nokkur félög sem eru ekki með skráð lið í 8. flokki stúlkna eiga hörkuleikmenn sem gefa bestu stelpunum sem léku um helgina ekkert eftir. Þessir leikmenn koma t.d. frá Snæfelli, Ármann/Þrótti og Hamri.

A-riðill í Grindavík

Fimm lið léku í a-riðli. Heimaliðið var með tvö lið, hin liðin voru frá Keflavík, Njarðvík og KR. Keflavíkurliðið er Íslandsmeistari í þessum aldursflokki og hefur sigrað í síðustu fjölliðamótum.

 

A-lið Grindavíkur mætti grimmt í alla leikina, lék góðan varnarleik og agaðan sóknarleik og náði að sigra í öllum leikjunum. Allt A-lið Grindavíkur lék vel þessa helgi, en einna best léku Yrsa, Andrea, Guðrún og Alexandra. Ellert þjálfari er búinn að vera með þetta lið lengi og hefur gert góða hluti með það eins og við er að búast af honum.

 

Keflavíkurliðið mætti með stóran hóp í mótið og fengu allir að spila nokkuð jafnt. Keflavík byggir leik sinn á hröðum sóknarleik og grimmum varnarleik. Þær léku vel í mótinu, töpuðu einum leik og lentu í öðru sæti. Aníta lék mjög vel, einnig áttu Lovísa og Eva gott mót.

 

Njarðvíkurliðið er vel þjálfað lið og er með góðan og samheldinn hóp. UMFN sigraði í tveimur leikjum og lenti í þriðja sæti. Njarðvíkurliðið vantar aðeins meiri stöðugleika. Þær léku lengstum mjög vel, t.d. lungann af leiknum á móti Keflavík sem þær töpuðu, en síðan áttu þær dapra kafla á milli eins og í fyrri hálfleiknum á móti KR. Fanney sem er einn besti leikmaður liðsins meiddist í fyrsta leik og lék ekki meira með þessa helgi og veikti það liðið nokkuð. Eyrún og Andrea léku vel í þessu móti.

 

Stelpurnar UMFG B töpuðu öllum leikjum sínum. Margar þeirra hafa æft stutt og tekið miklum framförum. Þar sem Ellert þjálfari var með stóran hóp af leikmönnum og spilaði upp á aukastigið þá náu þær að halda sér í A-riðli.

 

KR-liðið var fámennt báða daganna og lék upp og ofan og vann einn leik. Stundum lék liðið vel og náði að stríða Suðurnesjaliðunum, en slæmu kaflarnir voru of margir. Eflaust má rekja slæmu kaflana að miklu leyti til fámennis og úthaldsleysis. Í þessu móti var meiri samkennd í liðinu en oft áður og oft ágætis verkaskipting. Þar sem KR náði ekki að vera með fullt lið í mótinu fékk liðið ekkert aukastig og lendir í því að leika í b-riðli næst. Ingunn Erla lék best hjá KR í þessu móti eins og oft áður.

 

Nánari umfjöllun um mótið má finna á heimasíðu UMFN. Á tenglinum hér fyrir neðan má sjá úrslit mótsins: www.kki.is/mot/mot_1500002776.htm

 

{mosimage} 

Hér sést sameinginlega lið Fjölnis/Sindra eftir góðan sigur í fyrsta fjölliðamótinu.

B-riðill í Rimaskóla

Eftirfarandi lið voru í B-riðli: Fjölnir/Sindri, KFÍ, Hörður, Valur og Hrunamenn. Í fyrsta fjölliðamótinu sigraði Fjölnir/Sindri í öllum leikjum sínum en náði ekki að innbyrða svokallað aukastig vegna fámennis. Nú var liðið fullmannað og vann alla leiki sína, að vísu voru þrír sigrar naumir og einn þeirra vannst í framlenginu. Bergþóra og Sara léku vel í þessu móti.

 

Hrunamenn, Valur og KFÍ léku vel í þessu móti og verður gaman að fylgjast með þessum liðum á næstu mótum. Það varð hlutskipti Harðar að falla niður í c-riðil, en þrátt fyrir að lenda í neðsta sæti í riðlinum sýndi liðið miklar framfarir frá síðasta móti.

 

Nánari umfjöllun um þetta mót má sjá á heimasíðu Fjölnis. Á tenglinum hér fyrir neðan má sjá úrslit mótsins: www.kki.is/mot/mot_1500002777.htm

 

{mosimage} 

Sóllilja Bjarnadóttir leikmaður Breiðabliks kastar sér á boltann

C-riðill í Smáranum

Síðustu misseri hefur Breiðablik byggt upp yngri kvennaflokka sína hægt og rólega. 8. fl. gerði sér lítið fyrir og sigraði í c-riðlinum. Blikastelpur léku vel í fyrsta mótinu og voru nálægt því að sigra það. Blikaliðið leikur mjög skemmtilegan körfuknattleik og nær allar stelpurnar í liðinu eru á yngra ári.

 

Margrét Rósa leikmaður Hauka er einn besti leikmaður landsins í 8. flokki. Það segir nokkuð um breiddina í þessum aldursflokki að hennar lið skuli vera í c-riðli. Haukarnir eru að byggja lið í kringum hana og þær eiga eflaust eftir að lenda í b-riðlinum í vor. Heklustelpurnar hafa sýnt nokkrar framfarir síðan í fyrra og það verður gaman að fylgjast með þeim. UMFT er að byggja upp gott kvennastarf um þessar mundir og sést það m.a. á því að liðið var með tvö lið í keppni í þessu móti. Hrafnhildur Sonja er að þjálfa þessi lið og hún hefur sýnt það undanfarin ár að hún er hörkuþjálfari.    

 

Nánari umfjöllun um þetta mót má sjá á heimasíðu Breiðabliks og UMFT. Á tenglinum hér fyrir neðan má sjá úrslit mótsins:  www.kki.is/mot/mot_1500002778.htm

 

Mynd af KR: Foreldraráð KR

Mynd af Fjölni/Sindra: www.fjolnir.is/karfa

Mynd af Breiðablik: www.breidablik.is

 

Fréttir
- Auglýsing -