spot_img
HomeFréttirFrelsi, jöfnuður og bræðralag rúllaði upp æfingamóti

Frelsi, jöfnuður og bræðralag rúllaði upp æfingamóti

Að níu dögum liðnum arkar íslenska landsliðið inn á völl í Helsinki og leikur þar sinn fyrsta leik í lokakeppni EuroBasket 2017. Andstæðingarnir í fyrsta leik eru Grikkir og er íslenska liðið statt í Litháen um þessar mundir og mætir svo heimamönnum í æfingaleik á morgun sem verður þeirra síðasta verk fyrir Finnlandsförina. Með Íslandi í riðli í Finnlandi eru m.a. Frakkar og virðist franska vélin nú ganga smurt á öllum sílindrum eftir að hafa rúllað upp æfingamóti í Toulouse í Frakklandi.

Frelsi, jöfnuður og bræðralag eru einkunnarorð Frakka sem í íþróttum ganga jafnan undir viðurnefninu „Les Bleus.“ Bræðralag þeirra frönsku virðist sterkt um þessar mundir því það voru öngvir aukvisar sem mættu til leiks á æfingamótið en Frakkar skelltu Belgum og Svartfellingum örugglega og lögðu svo Ítali 88-63 í lokaleik mótsins.

Joffrey Lauvergne er kominn á fullan skrið að nýju en Frakkar óttuðust í sumar að hann gæti ekki verið með vegna meiðsla. Lauvergne er núverandi leikmaður San Antonio Spurs og lék áður með Bulls, Oklahoma og Denver. Lauvergne var með 20 stig og 6 fráköst á aðeins 19 mínútum fyrir Frakka í sigrinum gegn Ítalíu.

Frakkar hafa á öflugum hóp að skipa á leið til Finnlands en auk Lauvergne er þar að finna Evan Fournier leikmann Orlando Magic og Nando de Colo sem lék með Toronto Raptors 2014 en hefur síðan þá verið á mála hjá einu sterkasta félagsliði Evrópu, CSKA Moskvu.

Ef við lítum á afrekaskrá franska landsliðsins þá er hún ekkert slor. Frakkar höfnuðu í 3. sæti á EuroBasket 2015 og urðu Evrópumeistarar 2013 og jafnvel á leið inn til Finnlands er urmull öflugra leikmanna sem mun ekki geta tekið þátt eða gefa ekki kost á sér í verkefnið.

Á meðal þeirra sem verða ekki með Frökkum er hinn öflugi Rudy Gobert leikmaður Utah sem meiddist á hné í úrslitakeppni NBA deildarinnar. Þá eins og flestum er kunnugt verður Tony Parker ekki með Frökkum en Thomas Heurtel eða „Arftakinn“ eins og hann hefur verið kallaður verður illur viðureignar en þessi leikmaður Anadolu Efes hefur þegar átt góð mót að baki eins og hann sannaði á HM 2014 í fjarveru Parker.

Frakkar verða að teljast líklegir í A-riðli í Finnlandi en Ísland og Frakkland eigast við þann 3. september.

Nánar um franska liðið

Mynd/ Joffrey Lauvergne lítur vel út um þessar mundir fyrir franska liðið.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -