spot_img
HomeFréttir"Frekar einfalt" sagði Fannar Ólafsson eftir sigur KR á Keflavík

“Frekar einfalt” sagði Fannar Ólafsson eftir sigur KR á Keflavík

Lið KR virðist vera óstöðvandi í vetur en í gær unnu þeir sinn 13. sigur í deildinni í jafn mörgum leikjum og nú á sjálfum Íslandsmeisturum Keflvíkinga 88-97. KR liðið tók strax góða forystu í leiknum og hélt henna til leiksloka. Íslandsmeistararnir reyndu hvað þeir gátu en náðu ekki að ógna sigrinum í þetta skiptið.


Jón Arnór og Jakob skutu 100% í þristum í fyrsta fjórðung og var það driffjöðurin bakvið 13 stiga forskot þeirra röndóttu í fyrsta fjórðung. Eftir þennan fjórðung virtust KR-ingar vera komnir með sigurinn. En restin af leiknum var þó nokkuð jöfn þó svo að Keflvíkingar náðu aldrei að minnka muninn í meira en 9 stig. Yfirvegun og ró í leik KR skein í gegn þrátt fyrir góð áhlaup Keflvíkinga á tímabilum.  Þar með eru KR ósigraðir sem fyrr segir eftir 13 umferðir og þarf mikið að fara úrskeiðis ef deildarmeistara titillinn fari ekki í vesturbæinn þetta árið.  Sigurður Gunnarsson var besti leikmaður heimamanna með 27 stig og næstur honum var Hörður Axel með 17 stig og 6 stoðsendingar.  Hjá KR var Jón Arnór þeirra besti maður í kvöld með 28 stig og virtist ekki hafa mikið fyrir þeim, næstur honum var Jakob með 21.

Fannar Ólafsson, fyrirliði KR var ekki nægilega sáttur við leik sinna manna í kvöld þrátt fyrir sigur. “Ég átti ekki von á svona auðveldum leik hérna í kvöld mér fannst þetta frekar einfaldur sigur. Mér fannst þeir frekar andlausir hérna og Hössi (Hörður Axel) bjargaði því sem bjargað var fyrir þá í seinni hálfleik. Að vera komnir 15 stigum yfir strax í fyrsta leikhluta gegn Keflavík í Keflavík átti ég alls ekki von á en það er líkast til þreyta í mönnum. Við vorum ekki að spila vel í kvöld fannst mér, vörnin hjá okkur var hræðileg og það á sér kannski skýringu að Jason var fárveikur og Jón Arnór líka. Siggi Þorsteins var að spila gríðarlega vel í kvöld og nýtti teiginn vel og það er eitthvað sem við verðum að stoppa.
 

Er lið KR ósigrandi í ár ?
Nei ég myndi nú ekki segja það. En liðin eru að bæta við sig kana. Snæfell eru t.a.m. komnir með kana og fyrir eru þeir bara með hörku lið. Ég á reyndar eftir að sjá það að Keflvíkinga fái sér ekki kana. Mér finnst nokkuð líklegt að þeir eigi eftir að versla einn áður en langt um líður. Við göngum ekki að neinu vísu í þessu og þetta á bara eftir að verða harðari barátta hér eftir. 

Nick Bradford setti niður 18 stig gegn Njarðvík í kvöld og spilaði vel segja þeir. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af hjá ykkur ?
Nick Bradford er í sjálfum sér ekki áhyggjuefni fyrir okkur.Við spilum bara okkar leik og höfum litlar áhyggjur af því hvað þeir eru að gera. Ef við spilum okkar sterku vörn gegn þeim þá á það að skila okkur langt. Þessi bikarleikur á eftir að vera hörku leikur en heimavöllurinn á eftir að reynast dýrmætur grunar mig.

Fréttir
- Auglýsing -