spot_img
HomeFréttirFramtíðarstjörnunar á Sambíómóti Fjölnis

Framtíðarstjörnunar á Sambíómóti Fjölnis

Körfuknattleiksdeild Fjölnis í samvinnu við Sambíóin hélt uppteknum hætti síðustu ára með því að blása til stórmóts í körfuknattleik fyrir yngstu iðkendurna. Mótið sem haldið var um síðustu helgi var það sextánda í röðinni og löngu orðinn fastur liður hjá framtíðarkörfuboltasnillingum landsins.
 
Þátttakendur á mótinu voru stelpur og strákar fædd 2003 og síðar. Mörg hver voru að taka sín fyrstu skref í körfubolta. Áhersla er lögð á að hafa gaman, vera með vinum sínum, kynnast nýjum vinum og spila fullt af körfubolta.
 
Mótið fór fram um helgina 1. og 2. nóvember 2014 í Grafarvoginum. Spilað var í tveimur íþróttahúsum í Grafarvogi, annars vegar í Rimaskóla fyrir yngstu iðkendurna og hins vegar í Íþróttahúsi Grafarvogs Dalhúsum. Boðið var upp upp á kvöldmat, skúffuköku og mjólk í kvöldkaffi, morgunmat og pizzuveislu fyrir alla þátttakendur. Gengið var í blysför til kvöldvökunnar en þar skemmtu þátttakendur, þjálfarar og foreldrar sér saman m.a. í hinum ýmsu leikjum og rúsínan í pylsuendanum var sýning frá Sirkus Íslands. Boðið var upp á gistingu fyrir liðin í Rimaskóla og voru margir sem nýttu sér þann kost enda oft einn af hápunktum barnanna að vera með vinum sínum, skemmta sér og gista saman í skólastofu. Að venju var ekki keppt um sætin né stigin talin. Leikgleðin var í fyrirrúmi og lagt áherslu á að allir krakkarnir fengju að njóta sín. Þegar liðin voru búin að spila síðasta leikinn sinn á mótinu fengu þau afhendan verðlaunapening ásamt liðsmynd frá Sport Hero.
 
Á mótinu mátti sjá væntanlegar stórstjörnur íslensks körfuknattleiks, bæði hjá stelpum og strákum, auk þess sem tilvonandi þjálfarar í efstu deildum voru sumir hverjir að stíga sín fyrstu skref í þjálfun körfubolta.
 
Körfuknattleiksdeild Fjölnis vill koma á framfæri bestu þökkum til allra þátttakenda á mótinu fyrir að koma og spila körfubolta með okkur og njóta þess alls sem mótið hefur upp á að bjóða. Að sama skapi vill deildin koma á framfæri þökkum til styrktaraðila mótsins. Síðast en ekki síst vill stjórnin koma á framfæri þökkum til allra sjálfboðaliðanna sem lögðu fram vinnuframlag á mótinu en án þeirra hefði mótið ekki tekist eins vel og raun bar vitni. Deildin er gríðarlega stolt yfir því að hafa svo gott bakland og góðan stuðning frá foreldrum, iðkendum og þjálfurum körfuboltans hjá Fjölni.
 
Nánari upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðu mótsins sambiomot.wordpress.com
Hlökkum til að sjá ykkur öll aftur að ári, fyrstu helgina í nóvember árið 2015.
 
 
Körfuknattleiksdeild Fjölnis. 
 
Fréttir
- Auglýsing -