spot_img
HomeFréttirFramtíð Sigurðar óráðin: Ætlar að þjálfa áfram

Framtíð Sigurðar óráðin: Ætlar að þjálfa áfram

12:30
{mosimage}

 

(Sigurður Ingimundarson ásamt Hannesi S. Jónssyni formanni KKÍ á lokahófinu) 

 

Körfuknattleiksþjálfarinn Sigurður Ingimundarson var í fyrsta sinn á sínum langa ferli útnefndur þjálfari ársins í úrvalsdeild karla. Sigurður hlaut nafnbótina á lokahófi KKÍ um hvítasunnuhelgina og er vel að titlinum kominn enda þjálfari Íslandsmeistaraliðs Keflavíkur og landsliðsþjálfari með sigursælan feril á bakinu. Þá var kollegi hans Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkurkvenna einnig útnefndur þjálfari ársins við sama tilefni. Víkurfréttir náðu tali af Sigurði sem átti ekki von á þessari útnefningu. Siguður ætlar sér að þjálfa áfram á næstu leiktíð en hefur enn ekki gert upp hug sinn hvort hann verði áfram með Keflvíkinga. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta, www.vf.is

 

,,Ég er búinn að vera lengi í þessu en er ekkert voðalega upptekinn af svona hlutum en vissulega var gaman að fá þessa viðurkenningu. Annars finnst mér ég alltaf vera besti þjálfarinn,” sagði Sigurður kíminn enda ávallt stutt í gamanið hjá þessum öfluga þjálfara sem þó getur vel verið alvörugefinn. ,,Ég geri eins vel og ég get með liðið mitt og þar sem Keflavík byrjaði mótið roslaega sterkt þá héldu allir að við ættum bara að vinna alla leiki með 30 stiga mun. Við unnum alla okkar deildarleiki nema fjóra og það tel ég frábæran árangur í þessari sterku deild,” sagði Siguður sem var ánægður með tímabilið hjá Keflavík.

 

,,Þetta snýst ekkert um erlendu leikmennina, þeir litu vel út hjá okkur en til þess að vinna stórtitla verður þú að hafa sterka heimamenn enda sást það hjá liðunum sem unnu titlana að Íslendingar voru í flestum lykilhlutverkum í sínum liðum,” sagði Sigurður sem fannst umræðan um erlenda leikmenn verða of hávær í vetur. ,,Staðreyndin er bara sú að íslenska deildin er flott og góð,” sagði Sigurður en þessa stundina er það óráðið hvar þessi fremsti þjálfari þjóðarinnar mun sitja í skipstjórastól á næstu leiktíð.

 

,,Stjórn Keflavíkur hefur nálgast mig og athugað hvort ég vilji vera áfram með liðið og þá hafa einnig önnur lið haft samband við mig. Ég hef litið á stöðuna hér og þar og mörg lið hafa sett stefnuna hátt og ég er ánægður með það,” sagði Sigurður sem staðfesti við Víkurfréttir að hann mun þjálfa á næstu leiktíð en hann vildi ekki gefa upp hvaða önnur lið en Keflavík hefðu boðið honum þjálfarastólinn.

 

,,Það er ekki hægt að láta þessi mál sitja lengi í viðbót en mikil vinna er að fara af stað með landsliðið og það passar vel saman en mín mál fara að skýrast á næstunni,” sagði Sigurður og var þakklátur fyrir allan stuðninginn sem Keflvíkingar fengu í vetur. ,,Áhuginn hjá landanum er til staðar, leikmenn eru að verða betri og umgjörðin líka og allir að keppast við að hafa umhverfið sem best. Þetta er nákvæmlega eins og það á að vera í þessari flottu íþrótt og nú göngum við bara skrefinu lengra öll saman,” sagði Sigurður og ljóst að kappinn er strax orðinn spenntur fyrir næstu leiktíð, sama hvar hann verður.

 

www.vf.is

 

Fréttir
- Auglýsing -