Það verða Frakkland og Litháen sem munu leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn í körfubolta en bæði lið tryggðu sig inn í úrslit keppninnar í dag. Litháen lagði Króatíu 77-62 og Frakkland var rétt í þessu að leggja Spánverja í framlengdum slag þar sem Tony Parker fór mikinn.
Á morgun er leikið um sæti þar sem mætast annarsvegar Serbía og Ítalía og hinsvegar Slóvenía og Úkraína. Á sunnudag verða það svo Króatía og Spánn sem leika um bronsið en Litháen og Frakkland munu leika til úrslita.
Jonas Maciulis gerði 23 stig og tók 6 fráköst í dag þegar Litháen tryggði sig inn í úrslitin með sigri á Króatíu en Tony Parker er maður dagsins með 32 stig og 6 fráköst í sigri Frakka gegn Spánverjum áðan. Í framlengingunni áðan þurftu Spánverjar þrist og höfðu boltann þegar 10 sekúndur voru til leiksloka en þessi síðasta sókn Spánverja var einstaklega mikið hrafnaspark sem lyktaði með glórulausu þriggja stiga skoti frá miðherjanum Marc Gasol. Gasol var þó atkvæðamestur Spánverja í leiknum með 19 stig og 9 fráköst.
Mynd/ Tony Parker leiddi Frakka til sigurs gegn Spánverjum í kvöld.
Fylgstu með Karfan.is á Twitter:



