Snæfell tók á móti KR í 1. deild kvenna í kvöld. Snæfell var fyrir umferðin með 14 stig eftir 12 leiki en KR með 12 stig eftir 10 leiki. Það er mikið um frestanir og eru deildirnar nokkuð götóttar vegna þess. Við erum hins vegar bjartsýn og höldum í trúnna að öll liðin muni enda með jafn marga leiki í lok keppnistímabilsins.
Gangur leiksins
Snæfell hafði yfirhöndina langt framan af leiknum og virtust ætla að sigla þessu nokkuð þægilega í heimahöfn en KR-ingar voru ekki alveg tilbúnar að gefa sigurinn. Bæði lið voru kanalaus í leiknum og virtist það ekki há liðunum mikið. Baráttan var mikil og voru leikmenn að fleygja sér eftir boltanum í gríð og erg. Í stöðunni 52 – 43 fyrir Snæfell tóku KR-ingar sig til í andlitinu á meðan Snæfell urðu ragar í sókninni og áttu erfitt með varnarleikinn. KR breytti stöðunni í 54 – 55 á rúmum fjórum mínútum. Leikurinn því kominn í lás og spennan mikil. Liðin skiptust á körfum og í stöðunni 59 – 59 setti Vaka Þorsteinsdóttir risastóran þrist fyrir Snæfell og gaf þeim aukinn kraft. KR jafna svo á línunni og komast yfir með góðri sókn 62 – 64. Þá tók Rebekka Rán yfir leikinn og kláraði með góðu gegnum broti og víti. Frábær leikur sem hefði getað dottið báðu megin í lokinn.
Kjarninn
Leikurinn vinnst og tapast í frákastabaráttunni. Snæfell klára leikinn með 37 sóknarfráköst! Já þið lásuð rétt! Snæfell bætti svo við 26 varnarfráköstum og í heildina 63. KR tóku í heildina 35 fráköst. Snæfell tóku 80 skot í leiknum á móti 57 skotum KR, það gerði gæfumuninn.
Atkvæðamestar
Rósa Kristín Indriðadóttir fór fyrir sínu liði 17 fráköst og 11 í sókn hún bætti við 15 stigum. Rebekka Rán var stigahæst með 21 stig, 10 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna auk þess að vera svellköld á lokakaflanum. Helga Hjördís bætti við 11 stigum og var drjúg í leiknum.
Hjá KR var það Fanney Ragnarsdóttir sem var stigahæst með 21 stig 10 af 11 í vítum. Ragnhildur Arna var með 15 stig og Hulda Ósk með 11.
Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)
Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason