FSu gerði sér lítið fyrir og lagði Blika í Smáranum í kvöld, 100-104, eftir æsispennandi lokamínútur. Þetta var fyrsti sigur Fjölbrautaskólans í deildinni í vetur og er liðið enn á botninum en nú með tvö stig meðan Blikar eru með fjögur stig í 11. sæti en hafa ekki enn náð að sigra á heimavelli í Iceland Expressdeildinni. Með þessum úrslitum er hlaupin talsverð spenna í botnbaráttuna og virðist sem FSu, Blikar, Fjölnir og Tindastóll komi til með að berjast hatrammlega við falldrauginn alræmda.
Í upphafi leiks var fátt sem benti til þess að leikurinn yrði spennandi. Blikar byrjuðu betur og komust í 16-6 um miðbik 1. leikhluta og stemmningin virtist vera á þeirra bandi. Gestirnir gáfust þó ekki upp og löguðu stöðuna í 29-26 eftir 10 mínútna leik og reyndist það að mörgu leyti vera taktur leiksins; Blikar náðu yfirleitt 10-16 stiga forystu en botnliðið játaði sig aldrei sigrað og kom alltaf til baka. Það átti aukinheldur eftir að skila sér eins og lokatölur bera með sér.
Sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta. Heimamenn voru skrefinu á undan í öllum sínum aðgerðum og leiddu, 61-53. Fátt var um varnir í leiknum og var á stundum eins og leikmenn gætu skorað að vild.
Í þriðja leikhluta náðu Blikar enn á ný 16 stiga forystu, 84-68, og virtust með leikinn í hendi sér. Gylfi, Rúnar og Aðalsteinn komu sterkir inn í liðið meðan Richard Williams og Aleksas Zimnickas drógu vagninn fyrir FSu.
FSu byrjaði fjórða leikhluta með látum og saxaði smátt og smátt á forystu Blika. Það var eins og Kópavogsliðið tryði því ekki að gestirnir væru að jafna leikinn. Áðurnefndir Williams og Zimnickas voru sprækir í stigaskoruninni og hinir leikmennirnir komu mjög ákveðnir til leiks. Fjölbrautaskólinn jafnaði metinn í 86-86 þegar 7 mínútur voru eftir og skyndilega var kominn gríðarleg spenna í leikinn. Hún hélst allt til enda og
FSu á heiður skilið fyrir að gefast aldrei upp í leiknum. Fyrirfram hefði einhver haldið að lið sem er búið að tapa öllum þrettán leikjum sínum myndi brotna eftir að hafa lent 16 stigum undir. Svo var ekki, þeir héldu áfram með sinn leik enda skilaði það sér í tveimur stórum punkum.
Blikar hljóta að naga neglur sínar eftir leikinn. Lengstum léku þeir þó ágætlega en eitthvað andvara- og stemmningsleysi hrjáir þá og virðast þeir ekki hafa kraft í að slátra leikjum. Kópavogsliðið hefur nú farið illa að ráði sínu í þremur heimaleikjum í röð; gegn Keflavík, gegn ÍR í bikarnum og svo nú gegn FSu.
Stig Breiðabliks: Jonathan Schmidt 22, Jeremy Caldwell 21, Aðalsteinn Pálsson 13, Rúnar Pálmarsson 11, Gylfi Geirsson 10, Hjalti Friðriksson 7, Ágúst Angantýsson 6, Þorsteinn Gunnlaugsson 6, Arnar Pétursson 2, Daníel Guðmundsson 2.
Stig FSu: Richard Williams 38, Aleksas Zimnickas 24, Christopher Caird 17, Dominic Baker 13, Kjartan Kárason 10, Orri Jónsson 2.
Texti: GFG



