spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaFrábær sigur Tindastóls á Manchester Basket

Frábær sigur Tindastóls á Manchester Basket

Tindastóll tók á móti Manchester í fjórða leik liðsins í ENBL deildinni í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Bæði lið höfðu unnið 2 leiki en tapað einum hingað til og ljóst að það yrði hart barist.

Það var fín stemning í Síkinu frá byrjun og heimamenn byrjuðu vel með Basile í broddi fylkingar. Jafnt var á flestum tölum í byrjun og gestirnir voru að hitta mjög vel að utan. Heimamenn náðu góðum spretti og komust í 24-15 með góðum samleik Basile og Ivan en gestirnir minnkuðu muninn fljótt. Stólar áttu þó síðustu orðin og leiddu eftir fyrsta fjórðung 30-22.  Annar leikhluti hófst með 10-2 áhlaupi gestanna sem breyttu stöðunni í 34-32 en Stólar svöruðu að bragði og náðu níu stiga forskoti 41-32 með þrist frá Geks og gestirnir tóku leikhlé. Manchester menn voru svo sterkari það sem eftir lifði hálfleiks og náðu að komast yfir en Stólar kláruðu með frábærri körfu frá Júlla, staðan 49-48 í hálfleik.

Tölfræði leiksins

Þriðji leikhluti var mikill barningur frá upphafi til enda og það virtist hafa aðeins dofnað yfir stemningunni í Síkinu. Stólar byrjuðu betur með ákveðinn Taiwo og grjótharðan Drungilas og Þristur frá Basile setti 8 stiga forystu eftir tæpar 3 mínútur. Gestirnir áttu í vandræðum með 1-3-1 svæðisvörn Stóla enjöfnuðu 62-62 um miðjan leikhlutann en Basile svaraði með öðrum þrist. Ivan Gavrilovic var frábær í leiknum og ekki síst á þessum kafla þó hann hefði vissulega getað fengið á sig sóknarvillu í eitt skiptið sem hann braust að körfunni. Þjálfari Manchester manna varð brjálaður og uppskar tæknivillu. Stólar héldu haus og leiddu 76-72 fyrir lokaátökin. Síðasti leikhlutann var allt í járnum. Taiwo byrjaði á þrist og Stólar voru hænuskrefi á undan allt til að 2 mínútur voru eftir þegar gestirnir komust einu stigi yfir. Sex stig í röð frá Basile og víti frá Júlla og Geks á lokasekúndunum tryggðu Stólum svo dramatískan sigur 100-96

Hjá heimamönnum endaði Ivan stigahæstur með 28 stig, setti 14 af 16 skotum niður og reif þar að auki niður 11 fráköst. Basile stjórnaði leiknum vel og endaði með 23 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Athygli vakti að þær mínútur sem Adomas Drungilas spilaði voru Stólar +13 sem segir okkur sögu af fráköstum og varnarleiknum. Hjá gestunum endaði Henry stigahæstur með 21 stig og frábæra nýtingu en heimamenn rústuðu gestunum í frákastabaráttunni með 42 stykki gegn 27

Umfjölun / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -